Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   mán 25. mars 2024 19:07
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Wroclaw
Hareide talar áfram um helmingslíkur - „Undirhundar geta stundum bitið frá sér"
Icelandair
'Þú þarft að sjá það á morgun'
'Þú þarft að sjá það á morgun'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefán Teitur kom inn í hópinn.
Stefán Teitur kom inn í hópinn.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Arnór Ingvi klár.
Arnór Ingvi klár.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úkraína lagði Bosníu á fimmtudag.
Úkraína lagði Bosníu á fimmtudag.
Mynd: Getty Images
Velur Wroclaw leikvanginn fram yfir heimavöll Bosníu í Sarajevo.
Velur Wroclaw leikvanginn fram yfir heimavöll Bosníu í Sarajevo.
Mynd: Getty Images
Í aðdraganda leiksins gegn Ísrael talaði landsliðsþjálfarinn Age Hareide um það að það væri 50-50 fyrir fram hvort liðið færi áfram. Hareide bjóst svo við því að Úkraína myndi leggja Bosníu að velli og að sá leikur yrði mjög erfiður, sama hvort það væri fyrir Ísland eða Ísrael.

Á fréttamannafundinum í dag hélt þjálfarinn sömu línu og talaði um 50-50 möguleika, sagði að einhverjir teldu Úkraínu líklegri en pressan væri örugglega meiri á þeim.

Ísland mætir Úkraínu í úrslitaleik um sæti á EM annað kvöld. Leikurinn fer fram á heimavelli Slask Wroclaw í Póllandi og hefst hann klukkan 19:45 að íslenskum tíma.

„Það eru allir klárir í slaginn. Við þurftum að senda Arnór Sigurðsson heim (vegna meiðsla) og við kölluðum Stefán Teit Þórðarson inn í hópinn," sagði Hareide.

Vorkennir fólkinu í Úkraínu
Leikurinn er spilaður á tímum óvissu, átaka í Úkraínu, er hægt að hugsa bara um fótbolta í kringum leikinn?

„Við sjáum hvernig ástandið er hjá fólkinu í Úkraínu og við höfum tekið við mörgum flóttamönnum. Augljóslega vorkennum við fólkinu, fólkinu sem þarf að yfirgefa heimili sín. Líf fólksins sem er á átakasvæðinu er hræðilegt akkúrat núna."

„Núna spilum við fótboltamenn frá Úkraínu. Þeir eru góðir íþróttamenn og við verðum að einbeita okkur að því."


Örugglega meiri pressa á Úkraínu
Er Úkraína mun sterkara lið heldur en Ísrael og verður uppleggið varnarsinnaðra heldur en í leiknum á fimmtudag?

„Stundum er hægt að nálgast leikinn varnarsinnað en samt vera með augun á sóknarmöguleikum á sama tíma. Úkraína er mjög öflug fótboltaþjóð, það er mjög erfitt að meta hversu miklu betri þeir eru, þeir eru góðir á margan hátt. Við vitum að það er hægt að vinna öll lið. Þeir eru með gott lið og Ísland er með gott lið líka þegar það næst að láta allt ganga og maður nær að fá leikmenn til að gera það sem lagt er upp með."

„Við reynum að búa til heild sem er erfitt að sigra. Leikir eins og þessir hafa sitt eigið líf. Ef horft er í úrslitaleiki í öllum keppnum þá er ómögulegt að segja hvort liðið vinnur. Þetta er úrslitaleikur og sumir eru með úkraínska liðið sem líklegra liðið til að fara áfram. Ég segi að þetta sé 50-50. Ef við undirbúum okkur rétt þá er þetta 50-50. Það er örugglega meiri pressa á Úkraínu heldur en Ísland og stundum geta undirhundarnir (litla liðið eða það ólíklegra, e. underdogs) bitið frá sér."


Vildi ekki tala um einstaka leikmann
Hvaða leikmaður í úkraínska liðinu þarf liðið að passa sig mest á?

„Ég segi þér það ekki," sagði Hareide einfaldlega.

Hareide var spurður sérstaklega út í Arnór Ingva Traustason sem gat ekki klárað síðasta leik, hvernig staðan á honum væri.

„Arnór er í lagi," sagði sá norski einfaldlega.

Spá ekki í neinu öðru
Telur þú að það veiti úkraínska liðinu, vegna þess sem er að gerast í heimalandinu, forgjöf því leikmenn finni fyrir skyldu til að vinna?

„Ég held að það skipti í raun ekki máli. Þegar þú spilar fótbolta þá spáirðu ekki í neinu öðru en fótbolta. Fótboltinn getur hjálpað þjóðinni mikið, hvatt fólkið áfram og það finnur fyrir samheldni sem þjóð."

Veikleikar á liðum þegar þau sækja
Hver er helsti styrkleiki úkraínska liðsins?

„Þeir eru með sterka leikmenn, snögga leikmenn, þeir eru hrifnir af því að sækja og nýta tækifærin til þess þegar þau gefast. Ég sá þá spila gegn Ítalíu, þeir voru mjög góðir í að snúa vörn í sókn, eru með snögga leikmenn og reyna að vera fljótir að komast á milli varnarlínur andstæðinganna."

„Við megum ekki gefa þeim boltann á hættulegum stöðum. Ef það er hægt þá er hægt að halda þeim frá því að fá færi. Þeir eru með marga góða hluti í sínum leik, en þegar þú ferð í það að sækja þá eru veikleikar og við munum reyna að nýta okkur þá veikleika þegar tækifæri gefst. Við erum sömuleiðis með snögga leikmenn, tæknilega góða leikmenn og við getum nýtt þá."


Gaf aftur ekkert upp
Úkraínskur fjölmiðlamaður reyndi að veiða upp úr Hareide hvaða leikkerfi hann ætlaði að spila á morgun.

„Ég ætla ekki að segja þér hvaða kerfi við notum, því miður, þú þarft að sjá það á morgun."

Kýs Wroclaw fram yfir Sarajevo
Þjálfarinn var spurður út í leik Úkraínu og Bosníu.

„Við vorum með mann sem horfði á leikinn og við vitum hvernig Bosnía spilaði. Bosnía spilaði vel á móti Úkraínu og mér fannst Úkraínumenn heppnir í lokin. Ég vel þann kost frekar að fara til Wroclaw og spila heldur en að fara til Sarajevo."
Athugasemdir
banner