Munu Man Utd og Liverpool berjast um Eze? - Pochettino tekur við Bandaríkjunum - Antony gæti verið lánaður til Tyrklands
banner
   þri 25. júlí 2023 21:21
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Blikar töpuðu þrátt fyrir frábæra frammistöðu
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Jordan Larsson var maður leiksins með mark, stoðsendingu og línubjörgun.
Jordan Larsson var maður leiksins með mark, stoðsendingu og línubjörgun.
Mynd: EPA

Breiðablik 0 - 2 Kaupmannahöfn
0-1 Jordan Larsson ('1)
0-2 Rasmus Falk  ('32)


Lestu um leikinn: Breiðablik 0 -  2 FCK

Breiðablik mætti Kaupmannahöfn í forkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld og byrjaði leikurinn hryllilega illa fyrir Blika þegar Jordan Larsson var búinn að skora eftir 42 sekúndur. Kópavogsstrákarnir virtust ekki tilbúnir í slaginn og skoruðu Danmerkurmeistararnir alltof auðvelt mark.

„Valdemar Lund með sendingu inn fyrir vörn Blika og Anton Ari af einhverri ástæðu fer ekki út í boltann og fer í 50/50 einvígi við Larsson og tæklar boltann í Larsson og Larson mokar boltanum í opið markið..." segir í textalýsingu Fótbolta.net.

Blikar létu þetta mark ekki á sig fá og spiluðu glimrandi flottan fótbolta gegn erfiðum andstæðingum. Þrátt fyrir það virtist ekkert detta með heimamönnum þar sem hvert færið fætur öðru fór forgörðum og björguðu gestirnir meðal annars meistaralega á marklínu.

Það voru þó Danir sem skoruðu næsta mark, þvert gegn gangi leiksins. Gæðamunur leikmanna er til staðar og var það raunin í öðru marki FCK, þar sem Rasmus Falk og Larsson áttu stórglæsilegt samspil sem endaði með magnaðri hælsendingu frá Larsson og marki frá Falk.

Súrt fyrir Blika og gengu lið til búningsklefa í stöðunni 0-2 þrátt fyrir flotta spilamennsku Íslandsmeistaranna.

Síðari hálfleikurinn var rólegri. Bæði lið fengu færi og ríkti þokkalegt jafnræði á vellinum. Ísak Bergmann Jóhannesson og Orri Steinn Óskarsson komu inn af bekknum í liði FCK og komst Orri Steinn í dauðafæri en skalli hans fór yfir markið.

Blikum tókst ekki að minnka muninn þrátt fyrir tilraunir til þess og eiga ótrúlega erfiðan seinni leik framundan. Sigurvegari viðureignarinnar mætir sterku liði Sparta Prag í næstu umferð.


Athugasemdir
banner
banner