Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   fim 25. júlí 2024 21:25
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Grótta úr fallsæti - ÍR í toppbaráttu
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það fóru fjórir leikir fram í Lengjudeild karla í kvöld þar sem Grótta komst úr fallsæti með góðum sigri gegn Grindavík.

Lestu um leikinn: Grótta 3 -  1 Grindavík

Kristófer Orri Pétursson skoraði eina markið í opnum og spennandi fyrri hálfleik. Kristófer skoraði á 19. mínútu eftir góða fyrirgjöf frá Axel Sigurðarsyni.

Gróttumenn voru mun sterkari fyrstu 20 mínúturnar en Grindvíkingar tóku við sér eftir að hafa lent undir. Þeim tókst þó ekki að jafna fyrr en í síðari hálfleik, þegar Josip Krznaric skoraði eftir hornspyrnu.

Leikurinn róaðist niður við jöfnunarmarkið og ekki dró til tíðinda fyrr en á lokakaflanum þegar Matevz Turkus fékk að líta beint rautt spjald fyrir brot innan vítateigs.

Pétur Theódór Árnason steig á vítapunktinn en Aron Dagur Birnuson varði frá honum. Aron náði þó ekki að halda boltanum og fylgdi Pétur eftir með marki. Grótta innsiglaði sigurinn á lokasekúndunum eftir að Aron Dagur var kominn í sóknina hjá Grindvíkingum.

Gabríel Hrannar Eyjólfsson skoraði með skoti frá miðjum vellinum sem rataði alla leið í opið mark gestanna og urðu lokatölur því 3-1. Grótta fer upp úr fallsæti með þessum sigri og er með 13 stig eftir 14 umferðir.

Grótta 3 - 1 Grindavík
1-0 Kristófer Orri Pétursson ('19)
1-1 Josip Krznaric ('52)
1-1 Pétur Theódór Árnason ('84 , misnotað víti)
2-1 Pétur Theódór Árnason ('84)
3-1 Gabríel Hrannar Eyjólfsson ('98)
Rautt spjald: Matevz Turkus, Grindavík ('83)

Njarðvík og Þróttur áttust svo við í toppbaráttunni og gerðu 1-1 jafntefli eftir markalausan fyrri hálfleik.

Lestu um leikinn: Njarðvík 1 - 1 Þróttur R.

Kaj Leo í Bartalstovu tók forystuna fyrir heimamenn þegar boltinn datt fyrir hann utan teigs og skoraði Kaj laglegt mark með flottu skoti.

Þrótturum tókst að jafna með marki úr vítaspyrnu undir lokin. Kári Kristjánsson skoraði af punktinum eftir að Ibra Camara var dæmdur brotlegur innan vítateigs.

Það var mikill hiti í mönnum undir lokin og fékk Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkinga, að líta rauða spjaldið í uppbótartíma en lokatölur urðu 1-1.

Njarðvík er áfram í öðru sæti Lengjudeildarinnar, með 25 stig eftir 14 umferðir. Þróttur er í sjötta sæti með 19 stig.

Njarðvík 1 - 1 Þróttur R.
1-0 Kaj Leo Í Bartalstovu ('64)
1-1 Kári Kristjánsson ('82, víti)

Guðjón Máni Magnússon skoraði þá eina mark leiksins er ÍR sigraði Leikni R. í Breiðholtsslagnum.

Lestu um leikinn: ÍR 1 - 0 Leiknir R.

Guðjón skoraði í fyrri hálfleik eftir lága fyrirgjöf frá Hákoni Degi Matthíassyni og komst nálægt því að tvöfalda forystuna skömmu síðar.

ÍR-ingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en þeim tókst ekki að tvöfalda forystuna. Leiknismenn fengu góð færi í síðari hálfleik en tókst ekki að jafna metin á meðan heimamenn fengu einnig sín færi, en lokatölur urðu 1-0.

ÍR er með 22 stig eftir 14 umferðir og deilir þriðja sæti deildarinnar með ÍBV. Leiknir er í fallsæti eftir þetta tap, með 12 stig.

ÍR 1 - 0 Leiknir R.
1-0 Guðjón Máni Magnússon ('22)

Að lokum átti Afturelding heimaleik gegn Keflavík þar sem gestirnir af Reykjanesi tóku forystuna snemma með marki frá Edon Osmani snemma leiks í kjölfarið af hornspyrnu.

Lestu um leikinn: Afturelding 1 - 3 Keflavík

Mihael Mladen tvöfaldaði forystuna á 35. mínútu og leiddu Keflvíkingar því með tveimur mörkum í hálfleik. Mihael skoraði eftir kærulausan varnarleik Mosfellinga.

Afturelding vaknaði til lífsins eftir seinna mark gestanna en tókst ekki að minnka muninn fyrr en á 83. mínútu, þrátt fyrir góðar tilraunir.

Georg Bjarnason kom boltanum þá í netið eftir aukaspyrnu þar sem var mikill atgangur í teignum áður en boltinn datt fyrir Georg.

Heimamenn juku sóknarþungan í leit sinni að jöfnunarmarki en þess í stað fengu þeir mark í andlitið í uppbótartíma, þegar Valur Þór Hákonarson skoraði eftir skyndisókn.

Lokatölur urðu 1-3 og er Keflavík í fimmta sæti Lengjudeildarinnar með 21 stig úr 14 umferðum eftir þennan sigur. Afturelding er áfram með 17 stig.

Afturelding 1 - 3 Keflavík
0-1 Edon Osmani ('14)
0-2 Mihael Mladen ('35)
1-2 Georg Bjarnason ('83)
1-3 Valur Þór Hákonarson ('93)
Athugasemdir
banner
banner
banner