Endurkoma á Trafford? - Liverpool vill Eze - Pogba til Bandaríkjanna - Duran til Madríd?
   sun 25. ágúst 2024 19:15
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Breiðablik á toppinn eftir dramatískan sigur á ÍA - KA vann á flautumarki
Höskuldur Gunnlaugsson skoraði sigurmarkið úr víti á fimmtu mínútu í uppbótartíma
Höskuldur Gunnlaugsson skoraði sigurmarkið úr víti á fimmtu mínútu í uppbótartíma
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dagur Ingi Valsson skoraði sigurmark KA á lokasekúndum leiksins
Dagur Ingi Valsson skoraði sigurmark KA á lokasekúndum leiksins
Mynd: KA
Viðar Örn var á skotskónum
Viðar Örn var á skotskónum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik og KA unnu dramatíska sigra í 20. umferð Bestu deildar karla í dag. Bæði liðin skoruðu sigurmark seint í uppbótartíma.

Skagamenn mættu öflugir til leiks gegn Blikum. Hinrik Harðarson ógnaði fyrst með skoti sem Anton Ari Einarsson náði að loka á og þá lagði Hinrik upp gott færi fyrir Inga Þór Sigurðsson, en Anton aftur vel á verði.

Blikar unnu sig inn í leikinn og voru nálægt því að komast yfir er Ísak Snær Þorvaldsson flikkaði boltanum í átt að marki, en Viktor Jónsson bjargaði á línu.

ÍA fékk tvö góð færi undir lok fyrri hálfleiksins. Fyrst átti Johannes Vall sendingu á Viktor Jóns sem skaut boltanum framhjá og þá átti Vall sjálfur skot sem hafnaði í hliðarnetinu stuttu síðar.

Gestirnir vildu fá vítaspyrnu undir lok hálfleiksins er Árni Marinó Einarsson, markvörður ÍA, fór upp í einvígi við Ísak og kýldi boltanum frá en virtist fara af full kröftulega í Ísak. Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, fannst þó lítið vera í þessu og flautaði hann til loka fyrri hálfleiks stuttu síðar.

Færin voru á báða bóg í byrjun síðari. Daniel Obbekjær kom boltanum í netið fyrir Blika en var dæmdur rangstæður og þá átti Anton Ari flotta vörslu hinum megin á vellinum er Marko Vardic kom með glæsilega fyrirgjöf á Hinrik en varsla Antons enn glæsilegri.

Skagamenn tóku forystuna sjö mínútum síðar. Vall gerði vel á vinstri vængnum, fór framhjá tveimur leikmönnum áður en hann kom með boltann fyrir og á Hlyn Sævar Jónsson sem skoraði með góðum skalla.

Sóknarþungi Blika var mikill síðasta stundarfjórðunginn. Höskuldur Gunnlaugsson átti skot rétt framhjá markinu áður en Kristófer Ingi Kristinsson jafnaði stuttu síðar eftir sendingu Arons Bjarnasonar.

Þremur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma var Höskuldur nálægt því að tryggja sigur Blika er fyrirgjöf hans hafnaði í þverslá.

Leit Blika að sigurmarki hélt áfram. Alls var fimm mínútum bætt við venjulegan leiktíma, en á fjórðu mínútu fengu Blikar víti er Hlynur Sævar tók Ísak niður í teignum.

Fyrirliðinn Höskuldur fór á punktinn og tryggði Blikum dramatískan 2-1 sigur.

Blikar fara á toppinn með 43 stig en ÍA með 31 stig í 4. sæti.

Nýi maðurinn skoraði flautumark í sigri á Fram

KA vann Fram, 2-1, í Úlfarsárdal. Sigurmarkið gerði nýi maðurinn Dagur Ingi Valsson á lokasekúndum leiksins.

Akureyringar byrjuðu af krafti og fengu nokkur fín færi áður en Viðar Örn Kjartansson tók forystuna fyrir gestina.

KA-menn hentu löngum bolta fram á Daníel Hafsteinsson, sem kom honum inn fyrir á Viðar. Hann klippti sig inn á völlinn áður en hann setti boltann framhjá Ólafi Íshólm Ólafssyni í markinu.

Fram var ekki lengi að svara. Tíu mínútum eftir markið setti Alex Freyr Elísson boltann upp kantinn á Frey Sigurðsson sem kom föstum bolta fyrir markið. Hans Viktor Guðmundsson ætlaði að reyna bægja hættunni frá, en varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.

Heimamenn fengu tvö dauðafæri til þess að komast aftur yfir. Fyrst var það Fred sem var að komast í lúxusfæri en Steinþór Már Auðunsson kom út á móti og bjargaði KA-mönnum. Nokkrum mínútum síðar komst Guðmundur Magnússon einn á móti markverði.

Hann fór framhjá Steinþóri og var með opið mark, en Hans Viktor Guðmundsson náði að fleygja sér í skotið á ögurstundu og bjarga marki.

Í síðari hálfleiknum fékk Viðar Örn dauðafæri til að koma KA yfir þegar hálftími var eftir. Ásgeir Sigurgeirsson kom boltanum inn í teiginn á Viðar sem var aleinn, en hann þurfti að teygja sig í boltann, sem fór síðan rétt yfir markið.

Allt stefndi í jafntefli eða fram að þriðju mínútu í uppbótartíma. Hans Viktor fann Daníel Hafsteins sem kom með þessa frábæru sendingu inn í teiginn og á Dag Inga Valsson, sem stangaði boltann í netið. Fyrsta mark Dags fyrir KA, en hann kom til félagsins frá Keflavík fyrir gluggalok.

KA er komið upp í 6. sæti deildarinnar með 27 stig en Fram í sætinu fyrir neðan með 26 stig.

Fram 1 - 2 KA
0-1 Viðar Örn Kjartansson ('9 )
1-1 Hans Viktor Guðmundsson ('19 , sjálfsmark)
1-2 Dagur Ingi Valsson ('93 )
Lestu um leikinn

ÍA 1 - 2 Breiðablik
1-0 Hlynur Sævar Jónsson ('63 )
1-1 Kristófer Ingi Kristinsson ('82 )
1-2 Höskuldur Gunnlaugsson ('95 , víti)
Lestu um leikinn
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 22 15 4 3 56 - 23 +33 49
2.    Breiðablik 22 15 4 3 53 - 28 +25 49
3.    Valur 22 11 5 6 53 - 33 +20 38
4.    ÍA 22 10 4 8 41 - 31 +10 34
5.    Stjarnan 22 10 4 8 40 - 35 +5 34
6.    FH 22 9 6 7 39 - 38 +1 33
7.    Fram 22 7 6 9 31 - 32 -1 27
8.    KA 22 7 6 9 32 - 38 -6 27
9.    KR 22 5 6 11 35 - 46 -11 21
10.    HK 22 6 2 14 26 - 56 -30 20
11.    Vestri 22 4 6 12 22 - 43 -21 18
12.    Fylkir 22 4 5 13 26 - 51 -25 17
Athugasemdir
banner
banner
banner