mán 25. október 2021 14:18
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Steini: Það er bara fáránleg umræða
Icelandair
Við þurfum að nálgast leikinn af alvöru
Við þurfum að nálgast leikinn af alvöru
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við gerum einhverjar breytingar
Við gerum einhverjar breytingar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marki fagnað!
Marki fagnað!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halda boltanum innan liðsins.
Halda boltanum innan liðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ánægðar eftir leikinn gegn Tékkum.
Ánægðar eftir leikinn gegn Tékkum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Betra veður á morgun en á föstudag.
Betra veður á morgun en á föstudag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðsins, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag. Á morgun mætir Ísland liði Kýpur í undankeppni HM. Leikurinn hefst klukkan 18:45 á Laugardalsvelli.

Smelltu hér til þess að kaupa miða

Hér að neðan má sjá þær spurningar sem Steini fékk í tengslum við leikinn á morgun auk einnar spurningar um starfsumhverfið. Kýpur er án stiga eftir þrjá leiki og með markatöluna 1:20.

Halda áfram að þróa sinn leik
Leikurinn á morgun, er þetta leikur til þess að prófa nýja hluti?

„Við höldum áfram að þróa leik okkar. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að þessi leikur snýst um hvernig okkur mun ganga að brjóta þær á bak aftur. Þær liggja mikið til baka og eru þéttar. Við þurfum að halda áfram að þróa það, leysa þá hluti. Við lítum á þetta sem verkefni sem við verðum að klára og verðum að spila vel."

Einhverjar breytingar á liðinu
Ætlaru að gera einhverjar breytingar frá síðasta leik?

„Við gerum einhverjar breytingar já. Það verða einhverjar breytingar," sagði Steini og sagði að allar í hópnum væru heilar, lausar við meiðsli.

Þýðir ekkert hálfkák
Er erfiðara fyrir þig sem þjálfara að hvetja þitt lið áfram fyrir leik sem flestir búast við að liðið muni vinna stórt?

„Fyrir okkur snýst þetta um það að mæta af virðingu inn í leikinn, bera virðingu fyrir andstæðingnum og ef þú ætlar að bera virðingu fyrir andstæðingi sem þú telur að þú eigir að vinna þá þarftu að spila á þínu besta og leggja allt í þetta."

„Við nálgumst verkefnið þannig að við ætlum okkur að vinna þennan leik, ætlum að bera virðingu fyrir andstæðingnum á þann hátt að við mætum í leikinn með réttu hugarfari. Ég hef ekki áhyggjur af því að leikmenn geri það ekki vegna þess að við erum öll með okkar markmið og það þýðir ekkert hálfkák í því ef við ætlum að ná þessu markmiði."


Skipta í raun allir jafnmiklu máli
Var eitthvað spennufall eftir sigurinn gegn Tékkum? Finnuru fyrir að þú þurftir að kveikja einhvern neista aftur?

„Mér fannst koma meira sjálfstraust í liðið og meiri trú á verkefninu. Við gerðum okkur grein fyrir mikilvægi síðasta leiks en við fengum bara þrjú stig fyrir hann. Ef við vinnum á morgun þá fáum við líka bara þrjú stig fyrir það. Allir leikir eru mikilvægir, þetta eru bara átta leikir þannig að hver og einn leikur skiptir miklu máli og jafnmiklu máli raunverulega."

Aðrir aðilar sem hugsa um aðra hluti
Umræðan í kringum karlalandsliðið og gagnrýnin á KSÍ. Hefur þetta haft einhver áhrif á þig sem þjálfara og starfsumhverfið?

„Nei, í sjálfu sér ekki. Við höfum bara sett einbeitinguna á okkur og fólkið í sambandinu vinnur bara vel, stendur vel á bakvið okkur. Fyrir okkur snýst þetta bara um að spila þessa fótboltaleiki. Við reynum að hugsa um fótbolta daginn út og daginn inn. Það eru kannski aðrir aðilar sem hugsa út í aðra hluti og auðvitað snertir þetta mann þannig. Ég finn að þetta hefur áhrif á fólkið í kring en við reynum bara að einbeita okkur að fótbolta hliðinni og það er mitt hlutverk. Það hefur bara gengið þokkalega vel."

Snýst um að vinna leikinn
Þurfið þið að skora snemma í leiknum á morgun?

„Nei, við nálgumst aldrei fótboltaleiki þannig að þú verðir að skora strax í byrjun. Þetta snýst aðallega um að vinna leikinn. Við förum ekkert inn í þetta þannig að við verðum að gera eitthvað á fyrstu mínútunum. Ef það tekur 90 mínútur að skora eitt mark þá bara gerir það það."

Fáránleg umræða
Geturu sagt okkur eitthvað um þetta kýpverska lið?

„Það er mikill dugnaður í þessu liði þó að tölurnar í síðustu tveimur leikjum hafi ekki verið góðar. Hollenska liðið er frábært og þær áttu í basli þar. Tékkarnir skoruðu mikið úr föstum leikatriðum, voru grimmar þar og refsuðu. Þær voru að fá færi í báðum þessum leikjum og voru að koma sér í fínar stöður."

„Við getum ekki nálgast þennan leik á þann hátt að við munum bara ganga í gegnum þær. Við þurfum að nálgast leikinn af alvöru, festu, krafti og leggjum leikinn ekki upp þannig að við vinnum 10-0. Það er bara fáránleg umræða. Það er grundvallaratriði að við ætlum að vinna leikinn."


Fótbolti snýst um tvær hliðar
Er eitthvað sem þú ert að einblína á meira en annað í sóknarleiknum í þessari þróun sem þú talar um?

„Já, við höfum farið yfir það á æfingum undanfarið að þróa leik okkar í ákveðna átt. Við viljum halda boltanum vel innan liðsins og spila inn í ákveðin svæði. Við höfum æft það töluvert mikið að undanförnu og vonandi erum við bara á réttri leið. Við viljum vera með boltann, viljum þora að stjórna leiknum en að sama skapi þarf alltaf á einhverjum tímapunkti að verjast í fótboltaleik. Fótbolti snýst um tvær hliðar, að verjast og að sækjast. Við þurfum að vera góð í báðu."

Gefur ekkert upp
Geturu sagt okkur hvort Sandra eða Cecilía verði í markinu á morgun?

„Nei."

Fullkomið veður
Hvernig er veðurspáin?

„Er ekki betra að þú svarir því. Ég er ekki búinn að skoða það þannig ég er ekki alveg klár á því," sagði Steini léttur.

„Það á að vera fullkomið veður," sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sem sat við hlið Steina á fundinum.

Vilja auðvitað fá fleiri á völlinn
Það var ekki góð mæting á síðasta leik, hvernig er ykkar tilfinning í leikmannahópnum. Finnst ykkur þið þurfa að halda uppi heiðri KSÍ?

„Við erum öll í þessu saman. Við reynum ekki að blanda okkur mikið inn í þessa hluti en auðvitað tekur þetta á fólkið. Við viljum auðvitað fá fleiri á völlinn og ennþá meiri stuðning. Við höfum aldrei svekkt okkur eitthvað mikið, við spilum bara okkar leik og vonum það besta," sagði Karólína.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner