Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 25. nóvember 2019 13:00
Magnús Már Einarsson
Íslenskir stuðningsmenn segja Emery á endastöð - Vilja fá Allegri
Unai Emery er ekki vinsæll hjá stuðningsmönnum Arsenal.
Unai Emery er ekki vinsæll hjá stuðningsmönnum Arsenal.
Mynd: Getty Images
Massimilano Allegri.
Massimilano Allegri.
Mynd: Getty Images
Emery tók við af Arsene Wenger sumarið 2018.
Emery tók við af Arsene Wenger sumarið 2018.
Mynd: Getty Images
Mauricio Pochettino, fyrrum stjóri Tottenham, er á óskalistanum hjá sumum stuðningsmönnum.
Mauricio Pochettino, fyrrum stjóri Tottenham, er á óskalistanum hjá sumum stuðningsmönnum.
Mynd: Getty Images
Eftir jafntefli gegn Southampton um helgina er Arsenal með 18 stig í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Um er að ræða verstu byrjun félagsins síðan 1982.

Fótbolti.net hleraði nokkra stuðningsmenn Arsenal í dag og samdóma álit þeirra er að skipta eigi Emery út sem fyrst. Margir vilja hjá Massimiliano Allegri taka við. Hér að neðan má sjá hverju stuðningsmenn Arsenal svöruðu.

Er Unai Emery kominn á endastöð með Arsenal? Ef svo er, hver á að taka við?



Daníel Geir Moritz, Innkastið
Það er óhætt að segja að Emery sé kominn á endastöð. Leikur Arsenal hefur versnað, úrslitum hrakað og óánægja aukist mjög. Allt sem gerst hefur utan vallar hefur hann ráðið illa við að auki, sbr. fyrirliðaval, Xhaka-málið og meðferðin á Mezut Özil. Emery ber sig illa í viðtölum og á hliðarlínunni og er í raun óþolandi. Ég var gráti næst þegar ég sá Mourinho taka við Tottenham, enda draumastjóri minn. Úr því að hann er úr leik hallast ég helst að Allegri en þetta er orðið þannig að manni er nánast orðið sama hver kemur, bara að Emery fari.

Jón Kaldal, sparkspekingur
Það ætti að vera búið að segja Emery upp fyrir löngu. Það er kristalstært að hann ræður ekki við þetta. Ég hefði viljað láta fylgja honum út á bílastæði eftir síðasta leik. Hann má ekki eyða meiri tíma með leikmönnunum. Ég held að hann muni aldrei aftur þjálfa stórlið. Hann er of hræddur og negatívur í sinni taktík. Massimo Allegri hefur lengi verið efstur á óskalistanum mínum. Hann er á lausu. Það væri mikill fengur í Pochettino. Ef hvorugur þeirra fæst vil ég gefa Ljungberg sénsinn.

Sigurður Þórðarson, liðsstjóri landsliðsins
Því miður virðist það vera þannig að hann hafi aldrei verið rétti maðurinn í starfið, það þarf ekki annað enn að horfa á líkamstjáningu leikmanna að þeir hafa enga trú á því sem hann er að reyna að láta liðið gera, varnarleikur liðsins er oft á tíðum katastrófa, og sóknarleikurinn hugmyndasnauður, því fyrir mína parta verður að skipta um mann og það helst áður enn þessi frétt kemur út.

Það eru nokkrir sem koma upp í hugann sem mér finnst að eigi að taka við, Massimiliano Allegri ætti klárlega að vera fyrsti kostur, Patrick Vieira, Julian Nagelsmann, Mauricio Pochettino, Diego Simeone, gætu allir komið inn með ferska vinda og snúið þessari skútu við,

Einar Örn Jónsson, RÚV
Já, Emery er kominn á endastöð og gott betur. Það var eitt og annað í fyrra sem vakti furðu manns en úrslit náðust og þá Pollýannaði maður sig í gegnum þetta. Síðustu mánuðir síðustu leiktíðar og þeir mánuðir sem nú eru liðnir hafa hins vegar verið hreinasta hörmung.

Það versta við það virðist vera að fyrir hvern einasta leik er hægt að segja strax hvað muni ekki virka í uppstillingu og taktík hans og svo rætist það svo til alltaf. Hann virðist aldrei finna rétta blöndu í liðinu, nálgun hans á leiki er hræðslukennd og fálmkennd, samskipti við leikmenn og stjörnur liðsins virðast á mjög furðulegum stað og trú stuðningsmanna er fyrir lifandis löngu farin. Að hvorki leikmenn né stuðningsmenn hafi raunverulega fagnað jöfnunarmarkinu gegn Southampton er eitt og sér brottrekstrarsök. Sú staða á aldrei að vera uppi.

Emery er búinn en stærsti vandinn virðist samt vera efri hæðin hjá klúbbnum. Það er ótrúleg tregða til að viðurkenna vandann og taka á honum. Ekkert í spili liðsins eða þróun bendir til þess að Emery sé rétti maðurinn og á því þarf að taka og varla hægt að ætlast til að Emery ákveði bara sjálfur að hætta. Það eru menn á frekar háum launum við að ákveða það en þeir snúast í augnablikinu í hringi um sjálfa sig.

Hvað arftaka áhrærir þá væri maður nú nánast til í hvern sem er annan, svo langt er maður sokkinn. Að öllu gríni slepptu væri ég ekkert á móti Pochettino en það er nú samt hæpið. Ég væri til í að taka sénsinn á Mikel Arteta en það væri hugsanlega áhætta. Max Allegri væri áhættulítið skref. Svo mætti alveg leika sér með nöfn eins og Julian Nagelsmann sem væri áhætta eða Diego Simeone sem væri ákveðin sturlun. Þeir eru þó í vinnu sem stendur og ósennilegt að þeir séu á lausu.

Mitt gisk er Freddie Ljungberg og Steve Bould til skamms tíma meðan langtímalausn finnst. Aðalatriðið er bara að Emery fari sem fyrst, þó ekki væri nema til að lægja öldurnar.

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U17
Hver sem hefði tekið við þá hefði þetta verið mjög erfitt. Greinilega margt í klúbbnum sem þarf að jafna sig hvað varðar stjórnun eftir að sami maðurinn er búinn að taka ákvarðanir í langan tíma.
Því miður þá sýnist mér Emery vera kominn á endastöð og það þarf að fá nýjan mann. Presence og charisma er ekkert og það er mjög þungt yfir. Það þarf að koma janfvægi á leik liðsins bæði með aðferðafræði og leikmannakaupum. Það þarf mann sem tilbúinn að finna það jafnvægi og leyfa svo fremstu mönnunum að njóta sín. Pochettino og Nagelsmann eru afar áhugaverðir en sé það ekki gerast. Það þarf að koma röð og reglu á hlutina því þætti mér gaman að sjá Carlo Ancelotti stjórna Arsenal.

Kjartan Björnsson, rakari
Ég er fremur íhaldssamur þegar kemur að stjóraskiptum, minnugur þess að hafa stutt hr Arsene Wenger lengur en margir Arsenal-stuðningsmenn. Ég var bjartsýnn þegar Unai Emery var ráðinn til starfa enda góður árangur hans í starfi, grunnur þeirrar skoðunar. En mér finnst því miður hafa sannast á fyrsta heila ári hans í starfi að þetta starf á ekki við hann. Arsenal hefur mörgum góðum leikmönnum á að skipa og ungu leikmennirnir lofa mjög góðu. Þó mín skoðun sé sú að enn vanti okkur ígildi Tony Adams í vörnina og Vieira á miðjuna. En Emery hefur ekki það sem til þarf, hann nær ekki stemmningu og liðsanda og er vart talandi á enska tungu. Hvernig í veröldinni er hægt að “mótívera” leikmenn sem varla skilja hann? Þetta held ég allir sjái og því miður vil ég stíga skrefið strax fremur en bíða eftir einhverju í óljósti framtíð. Hvern á að fá í staðinn er erfitt að segja, vinsælt að segja Pochettino en Ljungberg gæti líka klárað til vors. Ég þjálfaði á sinni tíð en hef ekki réttindi og það liggur við að ég myndi treysta mér til að gera betur en Emery 🤪 Áfram ARSENAL að eilífu

Einar Guðnason
Það bendir ekkert til þess að Emery nái að snúa gengi liðsins við. Liðið spila hægan, lélegan og leiðinlegan fótbolta. Það er enginn neisti í liðinu, allt flatt og neikvæðnin í kringum klúbbinn meiri en ég man nokkurn tíman eftir. Dæmi um það hve leiðinlegur sóknarleikur liðsins er þá hefur Arsenal átt meira en 100 skotum færra á markið en City það sem af er tímabils. En það er kannski ekki við öðru að búast þegar hann mætir með 5 manna vörn og 2 varnarsinnaða miðjumenn á heimavelli gegn Southampton, liðinu í 19. sæti. Það gerir þá staðreynd reyndar enn sorglegri að Southampton áttu 21 skot á markið í þeim leik. Stuðningsmannahópur Arsenal hefur verið mjög tvístraður síðustu ár en Emery hefur náð að sameina þá alla í að vilja hann burt. Það er sennilega það besta sem hann hefur gert síðan hann mætti á svæðið.

Það væri blautur draumur að fá Patrick Vieira en ég er ekki viss um að hann sé endilega besti kosturinn. Arsenal þarf sóknarsinnaðan þjálfara sem þorir að spila fótbolta og hefur sterka sýn. Eric Ten Hag hjá Ajax er spennandi þjálfari en vill líklega ekki yfirgefa Ajax á miðju tímabili. Aðalmálið er að Emery fari, Ljungberg og Bould gætu þá tekið tímabundið við liðinu á meðan verið er að finna nyjan mann í starfið.

Gunnar Birgisson, RÚV
Unai Emery er kominn á endastöð. Svo mörg voru þau orð. Það er í raun ótrúlegt að horfa á leikleysuna sem á sér stað í Arsenal leikjum, lið sem hafði skapað sér sérstakan og heillandi leikstíl undir stjórn Wenger er núna algjörlega komið í strand eftir misheppnaðar tilraunir Emery. Hvernig hann höndlaði síðan skipun fyrirliða eitt og sér er brottrekstrarsök. Fá annað hvort Ralf Rangnick eða Erik Ten Hag inn takk.
Stöðutaflan England Premier league - karlar
  L U J T ms: mf: mun Stig
1 Arsenal 34 24 5 5 82 26 +56 77
2 Man City 33 23 7 3 80 32 +48 76
3 Liverpool 34 22 8 4 75 34 +41 74
4 Aston Villa 34 20 6 8 71 50 +21 66
5 Tottenham 32 18 6 8 65 49 +16 60
6 Man Utd 33 16 5 12 51 50 +1 53
7 Newcastle 33 15 5 13 69 54 +15 50
8 West Ham 34 13 9 12 54 63 -9 48
9 Chelsea 32 13 8 11 61 57 +4 47
10 Bournemouth 34 12 9 13 49 60 -11 45
11 Brighton 33 11 11 11 52 54 -2 44
12 Wolves 34 12 7 15 46 54 -8 43
13 Fulham 34 12 6 16 50 54 -4 42
14 Crystal Palace 34 10 9 15 44 56 -12 39
15 Brentford 34 9 8 17 52 59 -7 35
16 Everton 34 11 8 15 36 48 -12 33
17 Nott. Forest 34 7 9 18 42 60 -18 26
18 Luton 34 6 7 21 47 75 -28 25
19 Burnley 34 5 8 21 37 69 -32 23
20 Sheffield Utd 34 3 7 24 33 92 -59 16
Athugasemdir
banner
banner