Manchester United tók á móti Everton í gærkvöldi og tapaði slagnum þrátt fyrir að vera leikmanni fleiri nánast allan tímann.
Idrissa Gana Gueye fékk beint rautt spjald á 13. mínútu fyrir að slá liðsfélaga sinn í andlitið. Rauðu djöflunum tókst ekki að nýta liðsmuninn og urðu lokatölur 0-1 eftir að Kiernan Dewsbury-Hall skoraði eina mark leiksins.
25.11.2025 00:35
Everton skrifaði söguna á Old Trafford
Ruben Amorim þjálfari Man Utd var skiljanlega ekki sáttur með spilamennsku sinna manna í viðtölum að leikslokum.
„Þeir voru betra liðið fyrir og eftir rauða spjaldið, við sýndum ekki næga ákefð og þeir áttu skilið að sigra. Við verðum að gera betur en þetta, sérstaklega gegn tíu leikmönnum. Þetta voru ömurleg úrslit en við getum gleymt þeim í smástund og horft á frammistöðu liðsins, það er það sem ég hef áhyggjur af," sagði Amorim áður en hann var spurður hvort þetta tap væri skref til baka fyrir liðið.
„Já þetta er það, allir leikmenn liðsins áttu að gera betur í dag. Ég ræddi ekki við þá eftir lokaflautið, við munum fara yfir þetta á æfingu á morgun. Á þessari stundu er ég mjög pirraður eins og allir aðrir stuðningsmenn Manchester United.
„Við fengum mikið af færum sérstaklega í seinni hálfleik en þau komu öll eftir fyrirgjafir og seinni bolta. Það vantaði gæðin og ákvarðanatökuna á lokaþriðjungnum og þegar uppi er staðið var Everton betra liðið.
„Eftir að þeir misstu mann af velli bjóst ég við að strákarnir myndu halda boltanum betur og pressa stíft á andstæðinganna en við náðum ekki stjórn á leiknum. Við gáfum þeim alltof mikið pláss og strákarnir skildu ekki hvernig þeir áttu að spila leikinn manni fleiri.
„Það vantaði gæðin á sóknarþriðjungnum en það sem við söknuðum mest var ákafinn. Við getum ekki unnið leiki án ákefðar."
Þetta var fyrsti tapleikur Man Utd eftir fimm leiki án taps í ensku úrvalsdeildinni. Liðið er með 18 stig eftir 12 umferðir, alveg eins og Tottenham, Liverpool og Everton.
„Þetta tap kemur mér á óvart en undirstrikar að það er enn mikil vinna framundan. Þetta var frábært tækifæri fyrir okkur til að klifra upp töfluna með sigri á heimavelli, einum leikmanni fleiri. Þetta er mjög pirrandi."
Athugasemdir




