Það vakti mikla reiði meðal stuðningsmanna Barcelona þegar fyrrum varnarmaður FC Bayern og þýska landsliðsins, Jerome Boateng, kíkti í heimsókn til félagsins í síðustu viku.
Boateng fékk aðgang að æfingasvæði Barcelona og var tekið upp myndband þegar hann hitti fyrrum liðsfélaga sinn hjá Bayern, Robert Lewandowski, sem leikur fyrir Barca í dag.
Börsungar birtu myndbandið á samfélagsmiðla sína tveimur dögum fyrir sögulegan heimaleik gegn Athletic Bilbao og uppskáru mikil mótmæli vegna fortíðar leikmannsins. Boateng hefur verið dæmdur af þýskum dómstólum fyrir ofbeldi í garð fyrrum kærustu sinnar Kasia Lenhardt, sem framdi svo sjálfsmorð. Saman eiga þau tvíburadætur.
Spánverjum fannst sérstaklega kaldhæðnislegt að myndbandið hafi verið birt með þessari tímasetningu útaf því að fyrir upphafsflautið gegn Athletic var mínútu þögn til að minnast fórnarlamba ofbeldis gegn konum.
„Jerome Boateng er ekki samningsbundinn Barcelona á neinn hátt. Hann kom í heimsókn sem partur af ferli sínu í þjálfaranáminu, þetta var bara ein heimsókn sem hefur engin áhrif á starfsemi félagsins," segir í yfirlýsingu frá Barcelona.
„Félagið er áfram staðráðið í því að berjast gegn ofbeldi gegn konum og við skiljum hversu viðkvæmt þetta mál er. Ekkert sem fór fram í þessari heimsókn var gert til að gera lítið úr skilaboðum um að sporna við ofbeldi gegn konum."
Boateng fékk skilorðsbundna sekt og viðvörun frá þýskum dómstólum í fyrra eftir að hafa verið dæmdur sekur um ofbeldi gagnvart fyrrum kærustu sinni.
37 ára gamall Boateng hefur alltaf neitað fyrir að hafa lagt hendur á fyrrum kærustu sína. Meint atvik átti sér stað 2018 en þau voru kærustupar allt þar til í byrjun árs 2021.
Boateng og Kasia hættu opinberlega saman 2. febrúar og var hún búin að fremja sjálfsmorð einni viku síðar.
Boateng birti myndband nokkrum dögum eftir sambandsslitin þar sem hann sakaði fyrrum kærustu sína um að vera alkóhólisti og um að nota börn hans úr fyrra sambandi sem leið til að kúga hann.
Skilaboðum frá reiðu fólki á samfélagsmiðlum rigndi yfir hana á dögunum áður en hún tók eigið líf.
27.10.2025 06:00
Fer ekki í starfsþjálfun hjá Bayern eftir mikil mótmæli
Athugasemdir


