Stýrir ekki Sindra gegn KV í fjórðu umferð 2. deildar
Óli Stefán Flóventsson verður ekki á hliðarlínunni á morgun þegar Sindri mætir KV í hádegisleik í 2. deild karla, hann mun ekki stýra liðinu í þeim leik. Þetta herma heimildir Fótbolta.net.
Óli Stefán ritaði pistil á Facebook fyrr í þessari viku þar sem hann greindi frá því hann væri kominn í leyfi frá störfum sínum hjá félaginu. Hann er að hugsa stöðu sína hjá Sindra.
Hann gagnrýndi bæinn fyrir að styðja ekki nægilega vel við bakið á félaginu.
„Sem þjálfari knattspyrnuliðs Sindra hef ég reynt nánast allt til að benda á þá ömurlegu stöðu sem við búum við hér á okkar svæði þegar kemur að umgjörð og stuðning við starfið út frá okkar forsendum hér á Höfn í Hornafirði... Að líða eins og maður sé alltaf fyrir eða eins og starfið sé graftarkýli á bæjarfélaginu er ekki góð tilfinning fyrir hvaða starfsmann í hvaða starfstétt sem er, en nákvæmlega þannig líður mér í dag," skrifaði Óli Stefán í pistli sínum og gagnrýndi aðstöðuleysið sem Sindri býr við.
Óli Stefán kom Sindra upp úr 3. deild í fyrra en liðið er með fjögur stig í sjötta sæti eftir þrjá leiki. Sindri sækir KV heim á morgun en Mate Paponja kemur til með að stýra liðinu á morgun.
Sjá einnig:
Bæjarstjórinn svarar pistli Óla: Starf Sindra er okkur ómetanlegt
Athugasemdir