Jackson nálgast Bayern - Mainoo gæti farið frá Man Utd - Como hafnaði tilboði Tottenham í Paz
banner
   þri 26. ágúst 2025 08:40
Ívan Guðjón Baldursson
Marseille reynir við Ceballos og Palmieri
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Franska félagið Marseille er enn að vinna að því að kaupa inn nýja leikmenn eftir mjög annasamt sumar á félagaskiptamarkaðinum.

Félagið er að reyna að krækja í miðjumann og vinstri bakvörð og stendur í viðræðum við Real Madrid um Dani Ceballos.

Marseille vill fá leikmanninn á lánssamningi með kaupmöguleika en hann tók þátt í 45 leikjum með Real Madrid á síðustu leiktíð.

Ceballos er með tvö ár eftir af samningi og er hamingjusamur í Madríd. Ekki er víst að félagið sé tilbúið til að losa sig við hann þó að hann sinni hlutverki varamanns.

Ceballos er 29 ára gamall og hefur leikið fyrir Real Betis og Arsenal auk Real Madrid á ferlinum. Þá er hann með 13 landsleiki að baki fyrir Spán.

Marseille er á sama tíma nálægt því að ganga frá kaupum á ítalska bakverðinum Emerson Palmieri, sem kemur úr röðum West Ham.

Palmieri er ekki partur af áformum Graham Potter hjá West Ham en hann spilaði 32 leiki á síðustu leiktíð. Hann tók ekki þátt í æfingaferð Hamranna á undirbúningstímabilinu.

Hann er 31 árs gamall og er með 29 landsleiki að baki fyrir Ítalíu. Hann hefur meðal annars leikið fyrir Roma, Chelsea og Lyon á ferlinum og þekkir því til í frönsku deildinni.
Athugasemdir