Marokkómaðurinn Sofyan Amrabat var í fyrsta sinn í byrjunarliði Manchester United í kvöld, en hann segist vera að upplifa draum frá barnæsku.
Amrabat kom til United frá Fiorentina undir lok gluggans, en var ekki með í fyrstu leikjunum eftir komuna vegna meiðsla.
Hann kom við sögu á lokamínútunum í 1-0 sigrinum á Burnley og var þá í fyrsta sinn í byrjunarliðinu í 3-0 sigrinum á Crystal Palace í enska deildabikarnum í kvöld.
Leikmaðurinn spilaði vinstri bakvörð í leiknum, en var samt alls staðar á vellinum. Honum er alveg sama hvar hann spilar, svo lengi sem það hjálpar liðinu.
„Frá því ég var barn hefur það alltaf verið draumur minn að spila fyrir Manchester United,“ sagði Amrabat.
„Ef ég get hjálpað liðinu þá mun ég spila hvar sem er á vellinum, jafnvel í marki. Ég spila fyrir merkið,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir