Fyrr í kvöld tilkynnti FH ráðninguna á aðalþjálfaranum Jóhannesi Karli Guðjónssyni og aðstoðarmanni hans, Árna Frey Guðnasyni. Árni er öllum hnútum kunnugur í Kaplakrika en hann er uppalinn FH-ingur. Sem leikmaður spilaði hann með félaginu en ásamt því hefur hann verið yfirþjálfari yngri flokka.
Árni var síðast þjálfari Fylkis í Lengjudeildinni og stýrði þeim fyrri hluta sumars. Þar áður var hann þjálfari ÍR.
Fótbolti.net ræddi við Árna fyrr í kvöld.
„Mér líst mjög vel á þetta. Gott að vera kominn heim, maður þekkir þennan klúbb ágætlega. Ég er spenntur að vinna með Jóa og stoltur að hafa fengið tækifærið hér.“
„Þegar það fréttist hver væri að fara koma hingað gerðist þetta frekar hratt. Þetta var ekkert tilkynnt strax með mig sjálfan. Það tók ekki langan tíma að sannfæra mig um að koma hingað.“
Var aldrei neinn efi í þér að fara aftur í aðstoðarþjálfun eftir að hafa verið aðalþjálfari?
„Nei, ég hafði hugsað mér að læra af reyndari mönnum. Ég var með Jóhanni Birni í ÍR, vorum saman með liðið, og ég lærði mikið þar. Svo ákvað ég að taka skrefið einn í Fylki en með gott teymi í kringum mig. Mér fannst að á einhverjum tímapunkti að ég þyrfti að læra af öðrum og fara í nýtt hlutverk. Það var aldrei spurning þegar að kallið kom héðan.“
„Ég er náttúrulega alinn hér upp og börnin mín eru í FH. Svo er ég spenntur fyrir þessari hugmyndafræði sem maður var búinn að heyra um. Ég hlakka til að koma inn í verkefni sem er fyrirfram ákveðið hvað við ætlum að gera og hvernig við skulum gera þetta. Svo þegar nafnið hans Jóa kom inn í þetta þá varð ég enn spenntari að hjálpa klúbbnum mínum að fara ofar.“
Viðtalið við Árna má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.























