Óvíst hvort Casemiro og Maguire verði áfram hjá Man Utd - Glasner ætlar ekki að framlengja - Joelinton gæti farið frá Newcastle
banner
   fös 26. desember 2025 21:58
Brynjar Ingi Erluson
England: Amorim breytti um leikkerfi og Man Utd vann
Mynd: EPA
Anthony Gordon fór illa með nokkur góð færi
Anthony Gordon fór illa með nokkur góð færi
Mynd: EPA
Manchester Utd 1 - 0 Newcastle
1-0 Patrick Dorgu ('24 )

Manchester United er komið aftur á sigurbraut eftir að hafa marið 1-0 sigur á Newcastle United í 18. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford í kvöld.

Stærstu fréttirnar eru þær að Ruben Amorim, stjóri United, breytti um leikkerfi. Hann hefur verið mjög þver með að spila með þriggja manna varnarlínu, en í kvöld spilaði hann 4-4-1-1.

Hann talaði um það fyrir leikinn að það væri möguleiki á því að hann gæti þurft að aðlagast því að breyta um leikkerfi af og til þegar hann er ekki með leikmennina í að spila þriggja manna kerfi og hófst sú aðlögun í þessum leik.

Snemma leiks var Newcastle nálægt því að taka forystuna er Bruno Guimaraes stangaði boltann eftir hornspyrnu og nánast byrjaður að fagna áður en Senne Lammens varði stórkostlega frá honum.

Á hinum endanum var Aaron Ramsdale að kveinka sér í markinu og óvíst hvort hann myndi ná að halda leik áfram, en hann harkaði þetta af sér og áfram gakk.

Þegar tæpar 24 mínútur voru komnar á klukkuna kom sigurmark heimamanna. Diogo Dalot tók innkast inn í teiginn sem var hreinsað frá út á Patrick Dorgu sem tók hann viðstöðulaust á lofti og hamraði honum neðst í vinstra hornið.

Staðan í hálfleik 1-0 en í hálfleiknum gerði Amorim eina breytingu. Hann tók Mason Mount af velli og setti hinn unga og efnilega Jack Fletcher inn á. Jack er sonur Darren Fletcher sem vann fjölda titla með United frá 2002 til 2015 og starfar í dag sem þjálfari U18 ára liðsins.

Newcastle byrjaði síðari hálfleikinn sterkt og komust heimamenn varla úr eigin vítateig. Þeir fengu eitt stangarskot frá Benjamin Sesko upp úr nánast engu en annars var Newcastle mest megnis í því að sækja.

Lewis Hall átti hörkuskot af 25 metra færi í þverslá og þá vildu Newcastle-menn fá vítaspyrnu er Fabian Schär skaut boltanum í Lisandro Martínez. Boltinn fór af bringunni á honum og þaðan í höndina og því engin vítaspyrna dæmd.

Heimamenn að lifa á brúninni og virkaði það eins og tímaspursmál hvenær jöfnunarmarkið kæmi. Anthony Gordon átti skot framhjá markinu þegar um það bil tuttugu mínútur voru eftir.

Dalot gat gert út um leikinn á 73. mínútu er Martínez kom með aukaspyrnu inn á teiginn á dauðafrían Dalot sem var kominn í frábært færi, en Portúgalinn setti boltann yfir markið eftir góða pressu frá Ramsdale.

Gordon fór illa með hvert færið á fætur öðru og fundu gestirnir ekki jöfnunarmarkið sem þeir voru að leita að og niðurstaðan því 1-0 sigur heimamanna sem eru komnir upp í 5. sæti með 29 stig og fara upp fyrir erkifjendur sína í Liverpool á meðan Newcastle er í 11. sæti með 23 stig.
Stöðutaflan England Premier league - karlar
  L U J T ms: mf: mun Stig
1 Arsenal 17 12 3 2 31 10 +21 39
2 Man City 17 12 1 4 41 16 +25 37
3 Aston Villa 17 11 3 3 27 18 +9 36
4 Chelsea 17 8 5 4 29 17 +12 29
5 Man Utd 18 8 5 5 32 28 +4 29
6 Liverpool 17 9 2 6 28 25 +3 29
7 Sunderland 17 7 6 4 19 17 +2 27
8 Crystal Palace 17 7 5 5 21 19 +2 26
9 Brighton 17 6 6 5 25 23 +2 24
10 Everton 17 7 3 7 18 20 -2 24
11 Newcastle 18 6 5 7 23 23 0 23
12 Brentford 17 7 2 8 24 25 -1 23
13 Fulham 17 7 2 8 24 26 -2 23
14 Tottenham 17 6 4 7 26 23 +3 22
15 Bournemouth 17 5 7 5 26 29 -3 22
16 Leeds 17 5 4 8 24 31 -7 19
17 Nott. Forest 17 5 3 9 17 26 -9 18
18 West Ham 17 3 4 10 19 35 -16 13
19 Burnley 17 3 2 12 19 34 -15 11
20 Wolves 17 0 2 15 9 37 -28 2
Athugasemdir
banner
banner