Óvíst hvort Casemiro og Maguire verði áfram hjá Man Utd - Glasner ætlar ekki að framlengja - Joelinton gæti farið frá Newcastle
   fös 26. desember 2025 11:00
Brynjar Ingi Erluson
Goðsögn Nottingham Forest látin
Mynd: Nottingham Forest
Fyrrum fótboltamaðurinn John Robertson er látinn, 72 ára að aldri. Þetta kemur fram á BBC, en honum var eitt sinn lýst sem Pablo Picasso fótboltans.

Skotinn er einn sá eftirminnilegasti úr skoska boltanum en hann er hvað þekktastur fyrir tíma sinn hjá Nottingham Forest þar sem hann skoraði sigurmarkið er liðið varð Evrópumeistari í annað sinn í sögunni árið 1980 gegn Hamburg.

Árið áður hafði hann lagt upp sigurmarkið fyrir Trevor Francis er Forest vann Malmö í úrslitum keppninnar.

Hann lék 514 leiki fyrir Forest og skoraði 95 mörk á bestu árum í sögu Forest þar sem liðið vann sjö titla.

Robertson lék einnig með Derby County áður en hann sneri aftur til Forest í eitt tímabil áður en skórnir fóru upp í hillu.

Landsleikirnir voru 28 talsins og skoraði hann þar eftirminnilegt sigurmark gegn Englendingum árið 1981 og annað mark gegn Nýja-Sjálandi á HM árið 1982.

Brian Clough, fyrrum stjóri Forest, lýsti Robertson sem Pablo Picasso fótboltans. Pablo Picasso er áhrifamesti myndlistarmaður sögunnar og því ekki amalegt hrós það.

Í heimildarmynd sem kom út árið 2012 sagði Clough frá því hvernig hann breytti Robertson, sem var þá í engu formi og áhugalaus yfir í einn besta sendingarmann sögunnar, sem minnti á leikmenn frá Brasilíu eða Ítalíu.

Eftir ferilinn varð hann aðstoðarmaður Martin O'Neill, sem hann spilaði með hjá Forest. Þeir félagarnir unnu saman hjá Forest, Wycombe Wanderers, Norwich City, Leicester, Celtic og nú síðast Aston Villa árið 2010 er liðið fór alla leið í úrslit enska deildabikarsins.


Athugasemdir
banner
banner
banner