Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   fös 27. september 2024 14:40
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Sá fram á að ég yrði aldrei alveg sáttur við sjálfan mig"
'En ég hugsaði líka að þetta væri alveg fullkomin tímasetning því klúbburinn er á góðum stað'
'En ég hugsaði líka að þetta væri alveg fullkomin tímasetning því klúbburinn er á góðum stað'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þá held ég að þjálfari ÍBV þurfi að vera í Eyjum og búa þar'
'Þá held ég að þjálfari ÍBV þurfi að vera í Eyjum og búa þar'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
ÍBV spilar í Bestu deildinni næsta sumar.
ÍBV spilar í Bestu deildinni næsta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Maður vill alltaf hjálpa sínum heimaklúbb og ber alltaf tilfinningar til klúbbsins'
'Maður vill alltaf hjálpa sínum heimaklúbb og ber alltaf tilfinningar til klúbbsins'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér líður vel með þessa lendingu. Ég er búinn að hugsa í nokkra daga hvort það væri grundvöllur fyrir því að vera áfram. Við fjölskyldan erum flutt á höfuðborgarsvæðið aftur og að öllu máli ígrunduðu þá held ég að þjálfari ÍBV þurfi að vera í Eyjum og búa þar af því þetta er nú nóg af ferðalögum fyrir," segir Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, í samtali við Fótbolta.net.

Tilkynnt var í dag að Hemmi væri hættur sem þjálfari ÍBV eftir þrjú ár í starfi.

„Maður gengur stoltur frá borði, búinn að eiga frábæran tíma í Eyjum þessi þrjú og er þakklátur fyrir tækifærið, stuðninginn og samveruna. Ég er þakklátur öllum stjórnarmönnum og Eyjamönnum sem komu nálægt þessu. Það er gott að skilja við þetta á frábærum stað."

ÍBV lék í Bestu deildinni 2022 og hélt sér uppi. Liðið náði því ekki í fyrra en á þessu ári kom ÍBV sér beint upp aftur með því að vinna Lengjudeildina.

„Það er rosalega flottur og heilbrigður hópur til staðar, góður grunnur fyrir þann sem tekur við."

„Við fórum alveg yfir þann möguleika hvort það væri hægt að sinna þess verandi búsettur á höfuðborgarsvæðinu. Tímabilið er bara orðið það langt og mikil viðvera ef maður ætlar að gera þetta eins og maður vill gera þetta. Ég sá fram á það að ég yrði aldrei alveg sáttur við sjálfan mig. Ég varð að vera hreinskilinn við sjálfan mig, en það er erfitt að fara frá mínum klúbb, strákunum og öllum þarna í kring."


Náðu öllum markmiðum
Hemmi er ánægður með árin þrjú í Eyjum.

„Öll markmið í sumar stóðust: að spila yngri strákum, ákveðinn hluti voru Eyjamenn, að ná að vinna deildina og bæta okkur sem fótboltalið. Ég er mjög ánægður með það og stoltur af starfinu."

Elskar að vera fótboltaþjálfari
Það er óvíst hvað Hemmi gerir næst en hann er opinn fyrir því að halda áfram í þjálfun.

„Ég er bara silkislakur og sé hvað poppar upp, eða ekki, og tek ákvörðun út frá því. Ég er spenntur fyrir öllu, elska að vera í starfi þjálfarans. Það eru forréttindi að fá að vinna við þetta. Ég hef mikla ástríðu fyrir því."

Hann var aðeins viðloðinn U21 landsliðið í þjálfaratíð Davíðs Snorra Jónassonar. Er þjálfun hjá KSÍ, í yngri landsliðunum, eitthvað sem hugurinn leitar til?

„Ég skoða allt og er opinn fyrir öllu. Ég hafði ótrúlega gaman af því, það var skemmtilegt verkefni og alltaf gaman að vera í kringum landsliðin. Það heillar allt og væri spennandi."

Vill alltaf hjálpa heimaklúbbnum
Ertu með einhverja skoðun á því hver gæti tekið við ÍBV?

„Nei nei. Samstarfið við stjórnina og þá sem eru í kringum klúbbinn var ótrúlega farsælt. Maður hjálpar bara til við að benda á einhverja ef manni dettur einhver góður kostur í hug. Maður vill alltaf hjálpa sínum heimaklúbb og ber alltaf tilfinningar til klúbbsins."

„Það er erfitt að segja skilið við strákana og þá sem ég hef verið í nánu samstarfi við síðustu ár. Alltaf þegar samstarf er gott þá er erfitt að kveðja. En ég hugsaði líka að þetta væri alveg fullkomin tímasetning því klúbburinn er á góðum stað."

Athugasemdir
banner
banner