Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 28. mars 2021 14:51
Ívan Guðjón Baldursson
EM U21: Góð frammistaða ekki nóg gegn Dönum
Icelandair
Ari Leifsson í baráttunni í leiknum í dag.
Ari Leifsson í baráttunni í leiknum í dag.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Ísland U21 0 - 2 Danmörk U21
0-1 Gustav Isaksen ('5)
0-2 Mads Bech ('19)
0-2 Sveinn Aron Guðjohnsen ('39, misnotað víti)

Skoðaðu textalýsingu leiksins

Íslenska U21 landsliðið mætti ógnarsterku liði Dana í annarri umferð Evrópumótsins í dag.

Danir byrjuðu af miklum krafti og tóku forystuna snemma leiks þegar Gustav Isaksen kláraði flotta sókn. Endursýningar sýndu þó að sóknarmaður Dana var líklega rangstæður í aðdraganda marksins og það hefði því væntanlega ekki staðið með aðstoð VAR.

Strákarnir okkar virkuðu hálf sofandi á upphafsmínútunum og nýttu Danir sér það til að tvöfalda forystuna. Mads Bech skoraði eftir mikinn vandræðagang í íslensku vörninni í kjölfar hornspyrnu.

Strákarnir okkar tóku við sér eftir seinna markið og komust nálægt því að minnka muninn. Sveinn Aron Guðjohnsen átti fyrst skot sem fór rétt framhjá og steig hann svo á vítapunktinn eftir að brotið hafði verið á Ísaki Óla Ólafssyni innan vítateigs. Sveini brást þó bogalistin og lét hann samherja sinn í OB verja vítaspyrnuna.

Ísland var betra liðið í seinni hálfleik þó bæði lið hafi komist í álitlegar sóknarstöður. Stefán Teitur Þórðarson komst næst því að minnka muninn eftir leikhlé en varnarmenn Dana gerðu vel að henda sér fyrir boltann.

Það var lítið að frétta á lokakaflanum þar sem danska vörnin hafði góð tök á íslensku sókninni og lokatölur 0-2.

Danir eru með sex stig eftir sigur gegn Frökkum í fyrstu umferð. Strákarnir okkar eru án stiga eftir 4-1 tap gegn Rússum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner