Framherjinn öflugi Stefan Alexander Ljubicic er að ganga í raðir Skövde í sænsku B-deildinni en þetta herma heimildir Fótbolta.net.
Stefan er 24 ára gamall og ólst upp hjá Keflavík en var seldur til enska félagsins Brighton árið 2016.
Hann spilaði með bæði unglinga- og varaliði félagsins ásamt því að fara á lán til Bognor Regis Town og Eastbourne Borough á tíma sínum á Englandi, en hélt síðan heim og samdi við Grindavík 2019.
Framherjinn hefur einnig spilað með HK og KR hér á landi en hann gekk aftur í raðir Keflavíkur fyrir síðasta tímabil þar sem hann gerði þrjú mörk í nítján leikjum í Bestu deildinni.
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er Stefan við það að ganga í raðir Skövde í sænsku B-deildinni. Félagaskiptin verða tilkynnt á næstu dögum.
Srdjan Túfegdzic eða Túfa eins og hann er kallaður tók við liði Skövde í byrjun ársins eftir að hafa yfirgefið Öster en áður var hann þjálfari Grindavíkur, KA og einnig í þjálfarateymi Vals.
Þetta verður í annað sinn sem þeir vinna saman en Túfa var þjálfari Grindavíkur er Stefan snéri aftur heim árið 2019.
Athugasemdir