Man Utd og Liverpool meðal félaga sem vilja David - City reynir við Cambiaso - Romero eitt helsta skotmark Atletico
   mán 28. apríl 2025 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Erfitt fyrir suma að keyra í 20 mínútur á tvöfaldri Reykjanesbrautinni"
Lengjudeildin
Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Fyrir leik á síðasta tímabili.
Fyrir leik á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Njarðvík jafnaði sinn besta árangur á síðasta tímabili.
Njarðvík jafnaði sinn besta árangur á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Heiðar er að fara inn í sitt annað heila tímabil sem þjálfari Njarðvíkur.
Gunnar Heiðar er að fara inn í sitt annað heila tímabil sem þjálfari Njarðvíkur.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Njarðvík er spáð sjötta sæti.
Njarðvík er spáð sjötta sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
„Tímabilið leggst mjög vel í okkur. Peyjarnir eru búnir að æfa vel í allan vetur og þyrsta í að byrja mótið," segir Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur, í samtali við Fótbolta.net.

Njarðvík er spáð sjötta sæti Lengjudeildarinnar af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.

„Spáin kemur mér svo sem ekkert á óvart ef það er horft á „komnir/farnir“ listann hjá okkur fyrir tímabilið og hvar við enduðum í fyrra. En það gleymist oft að hugsa um þá leikmenn sem spiluðu sína fyrstu leiki í fyrra í Lengjudeildinni. Þeir eru árinu eldri núna og ég held að nokkrir af þeim munu springa út í sumar," segir Gunnar Heiðar.

Lærðum mjög mikið
Njarðvíkingar voru stálheppnir að falla ekki sumarið 2023 en í fyrra tóku þeir mjög jákvæð skref fram á við og voru lengi vel í baráttunni um að komast í umspilið. Það var bara slæmur endasprettur sem kom í veg fyrir það að þeir kæmust þangað inn.

„Mjög lærdómsríkt!" segir Gunnar Heiðar um síðasta tímabil. „Þetta var fyrsta heila tímabilið mitt sem aðalþjálfari Njarðvíkur og lærði ég mjög mikið. Ekki bara ég heldur einnig leikmennirnir, stjórnin og klúbburinn. Það var mikið nýtt fyrir alla í klúbbnum að vera í toppbaráttunni í Lengjunni í fyrra og lærðu menn af því. Margt sem við gerðum vel og margt sem við hefðum átt að gera betur. En núna finnst okkur við vera búnir að læra af þeim mistökum í fyrra og ætlum að mæta tvíefldir til leiks í ár."

Gunnar Heiðar segir að það hafi gengið mjög vel í vetur.

„Eins og ég sagði áðan þá erum við búnir að æfa mjög vel. Höfum spilað virkilega vel í flestum undirbúningsleikjum vetrarins og erum nýkomnir úr frábærri æfingaferð. Heilt yfir þá erum við í þjálfarateyminu ánægðir með undirbúningstímabilið," segir þjálfarinn.

Búinn að vera með þetta lið í ákveðinni vegferð í tvö ár
Hann er virkilega ánægður með þá leikmenn sem ákváðu að taka skrefið til Njarðvíkur í vetur.

„Stefnan okkar fyrir þetta tímabil var að reyna að fá fleiri Íslendinga í liðið okkar. En það er því miður erfitt fyrir suma leikmenn að keyra í 20 mínútur á tvöfaldri Reykjanesbrautinni til Njarðvíkur og því fengum við ekki alla íslenska leikmenn sem við vildum. En við erum virkilega ánægðir með þá leikmenn sem hafa komið til okkar og hafa þeir smellpassað inn í liðið okkar," segir Gunnar Heiðar.

Njarðvík spilaði virkilega flottan leik gegn Stjörnunni í Mjólkubikarnum á dögunum og liðið getur tekið með sér margt frá þeim leik, en ekki bara þeim leik.

„Við tökum alltaf eitthvað út úr hverjum leik sem við spilum. Hvort það sé Stjörnuleikurinn um daginn þar sem fullt af fólki sá okkur spila í fyrsta skiptið eða æfingaleikur við Hauka í nóvember síðastliðnum. Ég er búinn að vera með þetta lið í ákveðinni vegferð núna í tvö ár sem ég trúi á að geti gert góða hluti hér á Íslandi. Stjórn og leikmenn Njarðvíkur trúa því með mér og finnst mér við vera komnir nálægt þeim stað sem mig langaði að fara með þetta lið fyrir tveimur árum síðan."

Staðráðnir í því að bæta besta árangur félagsins
Gunnar Heiðar reiknar með því að Lengjudeildin verði mjög jöfn, eins og síðustu ár.

„Ég held að hún verði mjög jöfn eins og hún hefur verið síðustu ár. Held að það verði ekkert lið sem stingur af og það munu öll liðin taka stig af hvort öðru. Mikið drama á toppi, botni og í umspilssætunum. Persónulega finnst mér ótrúlegt að það sé ekki fjallað meira um þessa deild því hún hefur boðið upp á allt. Mikið drama og óvænt úrslit sem áhorfendum ætti að líka við því það er alltaf eitthvað í gangi í þessari deild. Fólk fær mikið fyrir peninginn sinn í Lengjudeildinni," segir Gunnar Heiðar.

„Við sem vorum í Njarðvík í fyrra erum allir með „bittersweet“ bragð í munninum okkar. Við gerðum virkilega vel og jöfnuðum besta árangur í sögu Njarðvíkur með því að lenda í 6. sæti Lengjudeildarinnar. En við erum líka mjög ósáttir að hafa ekki náð umspilssæti eins og okkur dreymdi um. Félagið jafnaði sinn besta árangur á síðasta ári og við erum allir staðráðnir í því að bæta besta árangur félagsins á þessu tímabili."

Eitthvað að lokum?

„Ég hvet alla til að mæta á leiki í Lengjudeildinni í sumar, þá sérstaklega Njarðvíkinga. Nú er karfan komin í sumarfrí þannig mig hlakkar til að sjá Ljónagryfjuna mæta á leiki okkar í sumar. Því þetta tímabil verður „one for the books“ og ég trúi því ekki að Njarðvíkingar vilji missa af því þegar við skrifum saman söguna í klúbbnum!" sagði Gunnar Heiðar að lokum.
Athugasemdir
banner