Þessir eru á óskalista Man Utd - Tilboði Arsenal í Calafiori hafnað - Barcelona vill Olmo
banner
   fös 28. júlí 2023 17:57
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
FH orðið laust úr félagaskiptabanni
FH fagnar marki í sumar.
FH fagnar marki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Morten Beck, fyrrum sóknarmaður FH.
Morten Beck, fyrrum sóknarmaður FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH er laust úr félagaskiptabanni sem félagið var dæmt í fyrir stuttu. FH var úrskurðað í félagaskiptabann út af launatengdri deilu við danska sóknarmanninn Morten Beck. Deilan snerist um það hvort FH skuldaði launatengd gjöld til leikmannsins.

„Það var að berast bréf. Samkvæmt því bréfi er búið að losa um félagaskiptabannið og málið vonandi afgreitt," segir Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH, í samtali við Fótbolta.net.

„Við erum búin að semja um uppgjör og annað þess háttar á því sem þar ber undir; skatti fyrst og fremst, og gjöldum. Það er ánægjulegt sem slíkt," segir Valdimar.

Morten Beck sagði FH hafa borgað sér sem verktaka en hann taldi sig hafa átt að vera launamann. Krafa hans var upp á 24 milljónir króna.

„Það var krafa mótaðilans en það var eitt af því sem við vorum aldrei sátt við, upphæðin. Þetta snýst um það að þessi tiltekni samningur var dæmdur af nefndinni sem launþegasamningur og þá þarf að gera hann upp sem slíkan, það hefur verið gert. Það er það sem skiptir máli," segir Valdimar en hver er upphæðin sem FH borgar?

„Við viljum ekki gefa það upp sem slíkt, það er nefndarinnar og dómstólsins að ákveða hvort gögnin séu fullnægjandi við ljúkningu málsins. En það er allavega verulega lægri upphæð en sú tala sem hefur verið rædd."

Málinu sé núna lokið
FH sér ekki annað en að málinu sé núna lokið.

„Við sjáum ekki annað en að þessu máli sé lokið. Við erum að okkar mati og að mati dómstólsins búin að gera það sem okkur bar. Þá teljum við málinu vera lokið. Það má ekki gleyma því að það stóð aldrei - samkvæmt dómnum - að við skulduðum Morten eitt eða neitt. Við gerum þá upp þennan samning samkvæmt dómstólnum og að það sé borgaður skattur og lífeyrissjóður af því."

„Þetta er ömurleg niðurstaða fyrir okkur þetta mál. Við stöndum enn keikir á því að þetta hafi verið fullgildur samningur og að við stóðum við allan þann hluta af samningnum sem við gerðum samning um. Við höfum ekki verið dæmdir af lögformlegum dómstólum heldur af nefnd innan KSÍ. Við reyndum að finna leiðir á þessu. Fyrst við fórum ekki með málið í aðra dómstóla þá höfum við leyst það með þessum hætti. Það er ánægjulegt sem slíkt en þetta ömurlegt mál engu að síður. Það er mikill kostnaður sem fellur á okkur og veldur okkur miklu tjóni. En þannig er bara lífið, áfram gakk. Það er alveg augljóst að við erum ekki með fulla vasa af fé til að kaupa leikmenn eftir þetta en við munum halda áfram eins og okkur FH-ingum einum er lagið, að reyna að gera hlutina vel og rétt. Nú er bara að reyna að halda áfram."

„Þetta er enginn sigur fyrir einn eða neinn. Stóra málið er að þetta er vonandi frá," sagði Valdimar að lokum.

FH getur núna gengið frá kaupum á Grétari Snæ Gunnarssyni frá KR ef félagið kýs að gera svo. Grétar er búinn að semja við FH.
Athugasemdir
banner
banner
banner