Heimild: Vísir
Stefán Árni Geirsson, leikmaður KR, verður ekki með liðinu á komandi tímabili eftir að hafa orðið fyrir slæmum meiðslum í úrslitaleik Bose-mótsins gegn Víkingum í gær.
KR-ingurinn meiddist eftir að Daníel Hafsteinsson sparkaði í afturlöppina á honum með þeim afleiðingum að löppin endaði í afar ljótri stöðu og var hann í kjölfarið borinn af velli á sjúkrabörum.
Stefán fór úr ökklalið og braut bein í fæti en í viðtali við Vísi segir hann að endurhæfingaferlið er 6-12 mánuðir og ljóst að hann verður ekkert með KR á tímabilinu.
„Ég hef aldrei séð svona áður. Fóturinn var í alveg frekar mjög ljótri stöðu,“ sagði Stefán við Sindra Sverrisson á Vísi.
Hann lítur hins vegar á björtu hliðarnar og segist afar þakklátur fyrir vini sína sem hafa sýnt honum mikinn stuðning síðasta sólarhringinn.
„Ég átta mig bara á því þegar þetta gerist hversu ríkur ég er af vinum. Ég var umkringdur góðu fólki í gær og svo komu vinir mínir til mín.“
„Það er fullt annað í lífinu en fótbolti en ég hef vissulega aldrei verið jafn fókuseraður og núna. Ég var mjög spenntur fyrir þessu tímabili – ekkert annað planað í sumar og öll einbeitingin á þessu. Það var þungt en þannig á maður að lifa. Ef eitthvað slæmt gerist þá bara gerist það. Ég verð bara að vinna úr þessu og sjá björtu hliðarnar,“ sagði hann ennfremur.
Athugasemdir