Óskari Hrafni Þorvaldssyni þjálfara KR var ekki úrslit eða leikurinn sjálfur efst í huga þegar hann mætti til viðtals við Fótbolta.net eftir 5-1 tap KR gegn Víkingum í úrslitaleik Bosemótsins sem fram fór í Víkinni fyrr í kvöld. Stefán Árni Geirsson leikmaður KR varð fyrir alvarlegum meiðslum í leiknum sem að lituðu nokkuð fas Óskars.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 5 - 1 KR
„Úrslit, leikur og eitthvað sem viðkemur leiknum sjálfum verður hjákátlegt þegar maður horfir upp á frábæran fótboltamann sem er sennilega fótbrotinn rétt fyrir mót. Það er bara ömurlegt og eitthvað sem er erfitt að sætta sig við.“
Þar bætist í meiðslalista KR sem er nokkur um þessar mundir en Óskar var þó jákvæður um stöðu hópsins og framhaldið.
„Þetta er bara frábært. Það eru flestir að koma til baka úr meiðslum og meiðsli eru bara hluti af leiknum. Þannig að ég get ekki staðið hér á móti þér og verið að vorkenna sjálfum mér. Við erum bara með þann hóp sem er klár hverju sinni.“
Um undirbúningstímabilið sem nú er að ljúka og hvort liðið væri á pari við þær væntingar sem Óskar gerir til þess sagði hann.
„Já ég held við séum vel yfir pari, það er svo sem erfitt að segja til um það svona nákvæmlega hvað var par og hvað var einn undir en mér finnst við vera á góðum stað.“
Allt viðtalið við Óskar má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir