Amorim samþykkir að taka við Man Utd - Arsenal íhugar að gera tilboð í Mbeumo - Liverpool vill Murillo
banner
   þri 29. október 2024 23:18
Brynjar Ingi Erluson
Amorim vildi ekki staðfesta neitt - „Mun bara skapa meiri hávaða“
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Portúgalski þjálfarinn Ruben Amorim vildi ekki staðfesta hvort hann væri að taka við Manchester United á Englandi er hann ræddi við portúgalska miðla eftir bikarleik Sporting gegn Nacional í kvöld.

Sporting sendi frá sér tilkynningu í dag um að United ætlaði sér að greiða 8,3 milljóna punda riftunarákvæði í samningi Amorim.

Amorim ræddi við fjölmiðla eftir 3-1 sigurinn á Nacional en hann sagði ekkert vera staðfest í þessum málum og að hann muni útskýra málið betur síðar.

„Ekkert sem hægt er að segja frá og engin tilkynning. Allt sem ég segi mun bara skapa meiri hávaða, þannig það er ekkert sem ég get sagt. Það kom yfirlýsing og allir vita af henni þar sem hún kom frá félaginu en fyrir utan það þá vitum við ekki smáatriðin í þessu. Við sjáum bara til en eins og kom fram í yfirlýsingunni þá er þetta undir mér komið. “ sagði Amorim við SportTV í Portúgal.

Einnig var Amorim spurður út í enskukunnáttu sína sem hann sagði vera vanþróaða.

Portúgölsku miðlarnir spurðu hann spjörunum úr og töluðu um ummæli hans fyrir nokkrum vikum þar sem hann ræddi um stöðugleika á liðinu, en í þetta sinn tók hann allan stöðugleika úr liðinu.

„Stöðugleiki er ekki allt í þessu lífi. Við munum hafa tíma til að tala um það. Ég mun útskýra allt sem ég þarf að útskýra, en varðandi orð mín þá getur ekkert komið í veg fyrir að eitthvað gerist í fótboltaheiminum. Eitt kemur ekki í veg fyrir annað. Aðeins einu sinni hef ég brotið loforð og það er dagurinn sem ég fór í flugvélina (í samningaviðræður við West Ham í Lundúnum) og hef ekki brotið það síðan. Stöðugleiki minn er í toppi og ég er mjög ánægður hér. Sjáum til hvað gerist í framtíðinni en ég hef enga stjórn á þessum hlutum. Því sem ég stjórna er hvað gerist næst og í augnablikinu liggur engin ákvörðun fyrir. Það er félag sem hefur áhuga, það er klásúla og viljinn til að borga hana,“ sagði Amorim á blaðamannafundi.

Í kjölfarið var hann spurður hvort hann vildi yfirgefa Sporting en það gat hann heldur ekki tjáð sig um, en gaf samt sterklega til kynna að það gæti farið svo.

„Félagið ræðir við annað félag og þá er næsta skrefið að ræða við þjálfarann. Þetta gerist oft og það gerðist þegar ég var hjá Braga. Það er mín ákvörðun hvort ég vilji vera áfram eða fara og ég mun taka þá ákvörðun síðar. Ég talaði við stjórnina til að skilja hvernig á að meðhöndla hópinn og leikmenn verða eflaust vonsviknir með mig ef ég fer en það er hluti af lífinu. Það gerðist hjá Braga þegar ég kom hingað. Það eru hlutir sem breyta lífi fólks og það er mjög erfið staða.

„Eins og ég sagði þá ætla ég ekki að tjá mig um það hvort ég sé að fara eða verði áfram. Það er einn af þeim hlutum sem á enn eftir að ákveða. Ég skil að leikmenn verða mögulega vonsviknir en ég mun lifa með því. Mikilvægasta er að klára þetta og útskýra allt. Það mun ég gera,“ sagði Amorim.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner