Sóknarmaðurinn ungi Chido Obi-Martin yfirgaf Arsenal á dögunum en hann segir ákvörðun sína ekki byggða á fjárhagslegum ástæðum.
Obi er 16 ára gamall sóknarmaður sem komst í fréttirnar í nóvember á síðasta ári er hann skoraði tíu mörk í 14-3 sigri á U16 ára liði Liverpool.
Hann hélt áfram að raða inn mörkunum fyrir unglingalið Arsenal og var verðlaunaður af Mikel Arteta, stjóra aðalliðsins. Obi var kallaður á æfingar með aðalliðinu.
Hann ætlar núna að finna sér annað félag þar sem hann efaðist um leið sína að aðalliðsfótbolta hjá Arsenal og þá var hann óviss um verkefnið hjá félaginu.
Obi telur það best fyrir sig að þróa leik sinn á öðrum stað. Samkvæmt ensku miðlunum er hann sagður á leið til Manchester United, en Bayern München og Borussia Dortmund hafa einnig sýnt honum áhuga.
Á dögunum fór hann í kynningarferð á æfingasvæði United og var Ruud van Nistelrooy, aðstoðarþjálfari aðalliðsins, fenginn til að sýna honum svæðið.
Athugasemdir