Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, gat ekki leynt ánægju sinni eftir 4-2 endurkomu sigur sinna leikmanna gegn Keflavík í Bestu-deild kvenna í dag.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 4 - 2 Keflavík
„Ánægður með sigurinn og ánægður með seinni hálfleikinn. Ég er ánægður að við fórum í leikplanið sem við ætluðum að nota í gegnum leikinn í seinni hálfleik, að herja á þær [Keflvíkinga] í breiddinni. Góður karakter, góður mórall í liðinu því við grófum okkur í holu í fyrri hálfleik, við spiluðum ekki góðan fyrri hálfleik en stelpurnar hafa sýnt það, það er töffari í þeim. Þetta verðskuldaður sigur og ég er ánægður með það,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, í viðtali við Fotbolti.net.
Ólafur er ekki í neinum vafa að verslunarmannahelgin verður yrði vel nýtt í Laugardalnum og minnti sína leikmenn á að þær geta hvílt sig eftir að mótinu lýkur.
„Við æfum á morgun [miðvikudag] og fimmtudaginn. Svo er smá möguleiki að vera aðeins með fjölskyldu og vinum yfir helgina en æfing á mánudaginn því það er mjög erfiður leikur gegn Tindastól á föstudaginn. Það er enginn pása núna, það er bara pása eftir mót,“ sagði Ólafur.
Viðtalið í heild má sjá í spilarnum hér að ofan, en þar fer Ólafur meðal annars vel yfir hvað gekk vel og hvað gekk illa í leikplani Þróttar í leiknum.