Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mán 30. desember 2013 20:15
Gylfi Þór Orrason
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Til hamingju Gylfi Þór
Gylfi Þór Orrason
Gylfi Þór Orrason
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Samtök íþróttafréttamanna
A-landslið kvenna stóð sig frábærlega í úrslitakeppni EM í Svíþjóð.
A-landslið kvenna stóð sig frábærlega í úrslitakeppni EM í Svíþjóð.
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Gylfi á góðri stundu með landsliðinu.
Gylfi á góðri stundu með landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árið 2013 var gott knattspyrnuár á Íslandi. Árangur íslenskra liða í alþjóðlegri keppni var betri en nokkru sinni fyrr. Góður árangur leiðir iðulega af sér fleiri leiki og sú varð líka raunin í ár.

Landsleikir Íslands hafa aldrei verið fleiri á einu ári, eða alls 75 leikir, og Evrópuleikir félagsliða voru fleiri en nokkru sinni, eða alls 22 að tölu. Þar að auki fóru fram hér á landi 2 leikir í Evrópukeppni félagsliða í Futsal. Svo góður var árangurinn að réttilega má telja árið 2013 vera hið besta í sögu íslenskrar knattspyrnu.

Skoðum aðeins nánar árangur landsliðanna okkar:

• A-landslið karla var aðeins hársbreidd frá því að tryggja sér farseðilinn til Brasilíu 2014.
• A-landslið kvenna stóð sig frábærlega í úrslitakeppni EM í Svíþjóð sl. sumar.
• U-21 árs lið karla er sem stendur í 2. sæti í sínum riðli á eftir heimsmeisturum þessa aldursflokks, Frakklandi.
• U-19 ára lið karla tryggði sér sl. haust sæti í milliriði EM eftir að hafa m.a. skilið sjálfa Frakka eftir með sárt ennið í forkeppninni.
• U-17 ára lið karla tryggði sér sl. haust sæti í milliriðli EM eftir glæsilegan sigur í forkeppninni í Rússlandi þar sem m.a.s. rússneski björninn þurfti að játa sig sigraðan.
• U-15 ára lið karla tryggði sér sl. haust farseðilinn á Olympíuleika æskunnar í Kína eftir góða sigra á móti Finnlandi og Armeníu.
• U-19 ára lið kvenna tryggði sér sl. haust sæti í milliriðli EM eftir góða frammistöðu í forkeppninni í Búlgaríu.
• U-17 ára lið kvenna tryggði sér sl. haust sæti í milliriðli EM eftir góða frammistöðu í forkeppninni í Moldavíu.

Unglingarnir sem skipa landsliðin sem talin eru upp hér að ofan eiga sér allir sínar fyrirmyndir. Stelpurnar hafa litið til Kötu, Margrétar Láru, Söru o.fl. o.fl. og undanfarinn áratug eða meir hafa strákarnir líklega, að öðrum ólöstuðum, mest litið til "Gull-Smárans" okkar.

Nú hafa Samtök íþróttafréttamanna "kvittað undir" þennan frábæra árangur íslenskra knattspyrnumanna á árinu með því að velja Gylfa Þór Sigurðsson sem Íþróttamann ársins 2013. Er hægt að hugsa sér betri fyrirmynd fyrir íþróttaæsku landsins? Þarna fer gríðarlega metnaðarfullur ungur maður sem setur sér háleit markmið, reykir hvorki né drekkur, mætir fyrstur á allar æfingar og fer síðastur heim og um hæfileika hans deilir varla nokkur Íslendingur.

Það er bæði gömul saga og ný að val á íþróttamanni ársins skapi heitar umræður þar sem hverjum þykir sinn fugl fegurstur. Það kemur því víst fáum á óvart að margir "besser-wisserar" í blogg-heimum skuli nú hafa risið upp á afturlappirnar og sagt íþróttafréttamönnum þjóðarinnar til syndanna. Flestir, sem betur fer, kurteisislega með því að benda á afrek "síns manns" máli sínu til stuðnings en allt of margir, því miður, verða sér til skammar með því að reyna að gera lítið úr afrekum þess sem varð fyrir valinu.

Í öðru sæti í vali íþróttamannanna varð mjög efnileg frjálsíþróttakona sem náði þeim magnaða árangri að verða bæði Evrópu- og heimsmeistari unglinga á árinu. Íslenska þjóðin stendur örugglega sameinuð um það að þarna fari efnilegasti íþróttamaður ársins 2013. Íþróttaæska landsins, þ.m.t. unglingalandsliðin okkar í knattspyrnu, hafa því í þessari mögnuðu hlaupakonu frábæra fyrirmynd, rétt eins og þau hafa í snillingnum Gylfa Þór Sigurðssyni.

Innilega til hamingju, Gylfi Þór Sigurðsson, Íþróttamaður ársins 2013, og takk fyrir alla skemmtunina á árinu !

Gylfi Þór Orrason
Athugasemdir
banner
banner
banner