Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   fös 31. janúar 2020 11:05
Magnús Már Einarsson
Íslendingur spjallaði við Rashford í langri flugferð - Gaf föðurleg ráð
Marcus Rashford.
Marcus Rashford.
Mynd: Getty Images
„Ég hafði ekki hugmynd við hvern ég var að tala. Mundi bara fornafnið og að hann væri frá Manchester þegar ég kom upp á hótel og googlaði hann," sagði Ingvar P. Guðbjörnsson, upplýsingastjóri og starfsmaður Sjálfstæðisflokksins, við Fótbolta.net í dag

Ingvar sat við hliðina á Marcus Rashford, framherja Manchester United, í tíu tíma flugferð frá London til Miami í vikunni. Ingvar ber Rashford einstaklega vel söguna en enski framherjinn byrjaði að spjalla við hann í fluginu.

„Við ræddum um mjög margt. Minnst þó um fótbolta. Ég er enn að reyna að átta mig á því afhverju svona heimsfrægur maður gaf sig á tal við mig. Mjög einlægur og indæll strákur."

Rashford verður frá keppni næstu tvo mánuðina og er því ekki í eldlínunni með United þessa dagana. „Hann er meiddur á fæti. Ég gaf honum föðurleg ráð og sagði honum að fara varlega. Hann væri bara 22 ára og þyrfti að nota fæturna alla ævi. Þá vissi ég ekki að þeir væru svona svakalega verðmætir þessir fætur."

Ingvar segist hafa rætt aðeins við Marcus um Ísland. „Já aðallega um að Íslendingar ættu góð landslið. Eða ég sagði honum það reyndar. Hann tók undir það. Hann hefur ekki komið til Íslands."

Rashford spilaði leikinn eftirminnilega í Nice árið 2016 þegar Ísland sló England út í 16-liða úrslitunum á EM. „Ég minntist ekki á sigur Íslands 2016. Vissi ekki enn hver hann var eða að hann hefði spilað í landsliði Englands. En meðan við vorum að ræða landslið Íslands sagðist hann hafa spilað gegn Íslandi 2016. Ég mundi vel að við hefðum unnið. En sá enga ástæðu til að nudda drengnum upp úr því," sagði Ingvar sem var ánægður með flugið með Rashford.

„Þetta var skemmtileg flugferð. Gaman að hitta svona frægan fótboltamann sem er laus við alla stjörnustæla. Ég vona að hann nái sér sem fyrst af meiðslunum og láti drauma sína rætast," sagði Ingvar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner