
„Mér fannst þetta heilt yfir ágætlega spilaður leikur af okkar hálfu. Við vorum að 'matcha' þær í 'dual-unum', vorum að halda ágætlega í boltann þegar við unnum boltann," sagði Guðrún Arnardóttir, varnarmaður íslenska landsliðsins eftir 2-0 tap gegn Þjóðverjum í A-deild Þjóðadeildarinnar á Laugardalsvelli í kvöld.
„Þetta víti var, ég held það sé dæmt einu sinni af hverjum tíu skiptum af þessu 'situationi' sko. Þannig að það var svona pínu svekkjandi og svo kannski í lokin vorum við svolítið farnar að taka sénsa og svona. En við vorum inn í leiknum allan leikinn í rauninni og ég er eiginlega bara stolt af liðinu eftir þessa frammistöðu þrátt fyrir tap."
Eftir að hafa spilað í miðverði á móti Danmörku s.l. föstudag var Guðrún færð í hægri bakvörð og mætti hún þar Klara Bühl sem fór illa með okkur í leiknum ytra.
„Þetta er náttúrlega hágæða leikmaður, hún spilar í frábæru liði í Bayern Munchen, en það er gaman að spila við svona góða leikmenn. En hægri bakvarðarstaðan eða, ef ég fæ að spila þá er ég ánægð sko. Steini má setja mig í hvaða stöðu sem hann vill, ég skal leysa það eftir minni bestu getu. Það er alltaf heiður að fá að spila og gaman að geta mætt svona góðum leikmönnum og eftir frammistöðuna úti að geta sýnt sitt rétta andlit," sagði Guðrún.
Lestu um leikinn: Ísland 0 - 2 Þýskaland
Tveir heimaleikir og ekkert stig í þessum glugga, en þrátt fyrir það má sjá jákvæða hluti hjá liðinu og Guðrúnu hefur þótt frammistaðan vera fín.
„Mér finnst í báðum leikjunum þá eru þetta búnir að vera jafnir leikir og við þurfum kannski aðeins að koma í veg fyrir þessi mörk sem við fáum á okkur og reyna að skoða þess á móti. Láta þetta detta í hina áttina, því mér fannst við svara vel í þessu verkefni með frammistöðu frá því í síðasta verkefni. Það eru greinilega ennþá þættir sem við þurfum að vinna í því við viljum taka sigrana," sagði Guðrún að lokum.
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.