Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, segir að Jón Guðni Fjóluson leikmaður Fram hefði mögulega verið í hópnum gegn Kýpur ef hann væri ekki frá keppni vegna meiðsla.
,,Sölvi (Geir Ottesen) er frá vegna meiðsla, hann hefði eflaust verið í þessum hóp og Jón Guðni jafnvel líka en á endanum varð þetta niðurstaðan," sagði Ólafur við Fótbolta.net í dag.
Tíu leikmenn úr U21 árs landsliðinu eru í hópnum og þeir hefðu verið ellefu ef Jón Guðni hefði verið heill.
,,Við eigum nokkuð stóran hóp af ungum og efnilegum leikmönnum og það er mjög bjart framundan."
Eiður Smári Guðjohnsen er ekki í hópnum en hann hefur ekki fengið mikið að spila hjá Fulham.
,,Ferill hans í Englandi hefur ekki verið eins og við höfum viljað upp á síðkastið. Hann hefur lítið spilað og það er ástæðan fyrir því."
Leikurinn gegn Kýpur er laugardaginn 26. mars næstkomandi en Ólafur telur að möguleikar Íslands séu ágætir.
,,Kýpurliðið er ágætis fótboltalið og tæknilega mjög góðir. Ég tel okkar möguleika vera ágæta á móti þeim. Ef við hlutirnir ganga þokkalega upp eins og við ætlum að gera þá eigum við fína möguleika á að vinna þá."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.