Kári Ársælsson, fyrirliði Breiðabliks, telur að úrslitin í leiknum gegn ÍA í Lengjubikarnum í kvöld hafi verið sanngjörn. Niðurstaðan varð jafntefli 2-2.
„Við ætluðum okkur að vinna í dag og þurftum sigur til að koma okkur eitthvað áfram í þessum riðli. En ætli maður verði ekki að segja að þetta hafi verið þokkalega sanngjörn úrslit," sagði Kári eftir leik.
Það vantaði sterka leikmenn í Breiðabliksliðið en til að mynda voru strákarnir sem voru með U21-landsliðinu ekki með í leiknum.
„Það er alltof mikið af góðum mönnum í þessu liði að láta velja sig í landsliðið. Það vantaði fimm í dag en þeir sem komu inn stóðu sig bara vel. Það er líka mikilvægt að þeir fái leiki upp á reynsluna og annað svo við lítum jákvæðum augum á það," sagði Kári léttur en eftir erfiða byrjun á árinu eru Blikar að finna betri takt.
„Við byrjuðum árið á botninum og erum hægt og bítandi að vinna okkur áfram. Við erum að ná því aftur upp að halda boltanum og spila eins og við gerðum hérna í restina. Þetta er allt að koma."
Viktor Unnar Illugason kom inn sem varamaður í kvöld en hann er að stíga úr meiðslum. Hann var ekki lengi að stimpla sig inn og skoraði síðasta mark leiksins beint úr aukaspyrnu. „Ég held að það verði núna mark á hverjum tíu mínútum frá honum," sagði Kári Ársælsson í léttum tón.
Hægt er að sjá viðtalið við Kára í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.