Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 30. júní 2011 12:00
Alexander Freyr Tamimi
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þjóðarstolt okkar Íslendinga í höndum KR
Alexander Freyr Tamimi
Alexander Freyr Tamimi
Menn kunna að segja að ég sé að ýkja stórlega þegar ég segi að leikur KR og ÍF Fuglafjarðar í undankeppni Evrópudeildarinnar í kvöld sé einn mikilvægasti leikur íslenskrar knattspyrnusögu, en ég segi það samt.

Í fyrradag var þessi leikur bara hver annar Evrópuleikur sem íslenskt lið tekur þátt í. KR-ingar að mæta liði frá Færeyjum, þetta er bara mjög þægilegur dráttur og við fljúgum þarna í gegn í næstu umferð! En ekki lengur...nei, ekki lengur..

Mikilvægi þessa leiks jókst margfalt í gær þegar heimslisti FIFA kom út. Á þessum lista eru Íslendingar niðurlægðir og útmálaðir sem ein versta knattspyrnuþjóð Evrópu. Samkvæmt listanum erum við lélegari í fótbolta en Færeyingar! Þarf ég að segja þetta hægt svo að þið áttið ykkur á mikilvægi þessara orða: Lélegari...í...fótbolta...heldur...en...FÆREYINGAR!

Ég get ekki lýst þeirri tilfinningu sem spratt upp í huga mér við þessar fregnir. Mér leið eins og eitthvað hefði brotnað innra með mér, eins og brot af sál minni og þjóðarstolti væri horfið. Ég geri mér grein fyrir því að Ísland er lítið sker með einungis 320,000 íbúa og erfitt að ætlast til að við séum stórþjóð í fótbolta, en Færeyingar eru ennþá minna sker með mun færri íbúa, og nú eru þeir fyrir ofan okkur á heimslistanum!

Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hversu alvarlegar fregnir þetta eru. Við vorum að enda við að horfa á U21 landsliðið okkar stimpla sig inn sem 5-6. besta lið Evrópu, en á meðan er A-landslið okkar aðhlátursefni um allan heim. Færeyski íþróttavefurinn Sportal.fo (ég vissi ekki einu sinni að þeir hefðu sín eigin lén!) kom með fyrirsögn sem greipti sig inn í minni mitt og fékk mig til að rífa af mér góðan lubba af eigin hári þannig að nú er ég með skallablett: ,,Vit eru betri enn Ísland". Að Færeyingar geti sagt að þeir séu betri í fótbolta en Ísland er bara ekki boðlegt!

En þvílík lukka, þvílík heppni, að íslenskt lið, fái einungis degi eftir útgáfu þessa lista, tækifæri til að sanna að við stöndum Færeyingum enn framar! Í kvöld ættu allir Íslendingar, sama hversu mikið þeir hata KR, að standa með Vesturbæjarstórveldinu, því að orðspor okkar er í húfi!

Það er gífurleg pressa á KR-ingunum, gífurleg pressa. Skyndilega fara þeir inn í leikinn sem ,,underdogs", eins og Skúli Jón Friðgeirsson orðaði það skemmtilega á Twitter. Nú hvílir sú ábyrgð á herðum þeirra að fara út á völlinn og sanna að Ísland sé betri en Færeyjar í fótbolta. Þetta er eins og landsleikur, hér mætast fulltrúar þjóðanna í baráttu upp á líf og dauða.

Gerið það, elsku KR-ingar..klárið þessa Færeyinga og gefið mér ástæðu til að halda því fram að þessi heimslisti FIFA hafi verið skrifaður af manni sem veit ekki RASSGAT um fótbolta!! Koma svo KR, sýnið að ,,vit eru betri enn Føroyar"!!
banner
banner