Roy Keane, fyrrum fyrirliði Manchester United, gæti tekið við íslenska landsliðinu þegar Ólafur Jóhannesson hættir eftir undankeppni EM í haust. Keane er á leið til landsins en hann mun fylgjast með leik Íslands og Kýpur á morgun.
Eiður Smári Guðjohnsen, leikmaður íslenska liðsins, vill lítið tjá sig um fréttir af Keane.
Eiður Smári Guðjohnsen, leikmaður íslenska liðsins, vill lítið tjá sig um fréttir af Keane.
,,Það er leikur á móti Kýpur á morgun og ég er ekkert farinn að spá í hver verður næsti landsliðsþjálfari. Ég held að það sé pínu vanvirðing að tala um næsta landsliðsþjálfara þegar við erum ennþá með þjálfara í starfi. Það eru tveir leikir eftir í riðlinum og eftir þá leiki er nægur tími til að spá og spökulera," sagði Eiður við Fótbolta.net fyrir æfingu landsliðsins í dag.
,,Þetta er ekki eithvað sem ég ligg vakandi yfir og ekki eitthvað sem ég er að spá í akkúrat núna. Við höfum önnur verkefni til að einbeita okkur að og við leyfum stjórnarmönnum KSÍ að spá í þessu."
Eiður þekkir sjálfur til Keane eftir að hafa leikið á mótin honum nokkrum sinnum á ferlinum.
,,Ég hef spilað á móti honum nokkrum sinnum og hann var frábær leikmaður en hvort sem hann verður næsti landsliðsþjálfari eða einhver annar, við verðum bara að bíða og sjá," sagði Eiður.