Breiðablik vann 2-1 sigur á Virtus, meisturunum frá San Marínó, í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar. Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, ræddi við Fótbolta.net að leik loknum.
Lestu um leikinn: Breiðablik 2 - 1 Virtus
„Við byrjuðum með miklum yfirburðum og fáum góð færi á fyrstu tíu mínútum til þess að koma okkur í góða stöðu. Svo bara gefum við gríðalega klaufalegt víti sem var óþarfi. Það var þó nóg eftir af leiknum en sóknarleikurinn sem var í góðum takti í upphafi varð aðeins örvæntingarfullari í kjölfarið, sem var algjör óþarfi. Svo bara náðum við góðum takti og jöfnum tiltölulega snemma, segir Halldór Árnason.
Blikar fengu mörg góð færi til þess að skora fleiri mörk í leiknum en allt kom fyrir ekki.
„Miðað við stöðurnar og færin þá auðvitað verðum við að gera betur og skora fleiri mörk á heimavelli. Þetta var að einhverju leyti sjálfstraustleysi fyrir framan markið. Við erum með boltann í og við teiginn stóran hluta leiksins."
Margir hefðu búist við því að Blikar myndu fara með stærra forskot út til San Marínó en þeir verða að láta sér eitt mark nægja í þetta sinn.
„Ég er sáttur með að vinna en miðað við hvernig leikurinn spilaðist og stöðurnar og færin sem við fengum þá vildi ég skora fleiri mörk, alveg klárlega."
Kristinn Steindórsson kom inn á fyrir Höskuld Gunnlaugsson í hálfleik en Halldór segir að meiðsli hafi verið að plaga Höskuld og því hafi hann ekki klárað leikinn.
Síður en svo er hægt að segja að Breiðabliks séu komnir áfram þrátt fyrir sigurinn í kvöld. Virtus vann til að mynda 3-0 sigur gegn Milsami Orhei, meisturunum frá Moldóvu, í síðasta heimaleik sínum í Evrópu.
„Þeir fara með mikla trú í þennan leik, þetta er sama staða og þeir fóru með heim gegn liðinu frá Moldóvu seinast. Það er eins gott að við tökum þá alvarlega. Það voru kaflar í leiknum þar sem yfirburðir okkar voru miklir sóknarlega og hluti af liðinu mínu hélt bara að einhver myndi rétta þeim boltann og fara í næstu sókn í stað þess að fara upp í skallabolta og fara í návígi og vinna fyrir hlutunum. Það er eins gott að þetta verði klárt í leiknum í San Marínó."
Athugasemdir