
Jón Ólafur Daníelsson þjálfari kvennaliðs ÍBV var kátur eftir stórsigur lærimeyja sinna gegn HK í toppslag Lengjudeildarinnar fyrr í kvöld.
Lestu um leikinn: ÍBV 4 - 1 HK
Eyjakonur tryggðu sér þar með Lengjudeildartitilinn þó það séu ennþá tvær umferðir eftir af tímabilinu.
Alisson Lowrey hefur verið ótrúlega öflug í sumar og skoraði hún þrennu í 4-1 sigri í kvöld.
„Það er dásamlegt að tryggja sér sigur í deildinni eftir að hafa tryggt okkur veru í Bestu deild á næsta ári. Ég óttaðist þennan leik mjög mikið, fyrst við vorum búnar að tryggja sætið óttaðist ég kæruleysi hjá mínum stúlkum en þær héldu sér á jörðinni og kláruðu þetta verkefni með þvílíkum sóma að maður gengur stoltur frá þessum leik," sagði Jón Óli eftir sigurinn dýrmæta og vonast hann til að halda útlendingunum í Vestmannaeyjum á næsta ári eftir frábæra frammistöðu í sumar.
„Það var aldrei möguleiki að þær færu einhvert annað í glugganum, þær elska Vestmannaeyjar og elska að fara í tuðruferð með okkur. Það er hvergi fallegra og betra að vera en í Vestmannaeyjum. Þær eru orðnar eins og innfæddar."
Markvörðurinn Guðný Geirsdóttir ætlar þá að leggja markmannshanskana á hilluna eftir tímabilið en Jón Óli er, ásamt pabba hennar, að reyna að sannfæra hana um að skipta um skoðun.
„Sko hún hefur ekki sama sjálfræðisaldur og aðrir Íslendingar. Hún verður ekki sjálfráða fyrr en hún verður 35 ára þannig hún hefur ekkert um það að segja hvort hún ætlar í fótbolta eða ekki á næsta ári."
ÍBV hefur aðeins fengið 13 mörk á sig í 16 deildarleikjum og er með 52 mörk í plús.
Lengjudeild kvenna
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. ÍBV | 16 | 14 | 1 | 1 | 65 - 13 | +52 | 43 |
2. HK | 16 | 11 | 1 | 4 | 41 - 24 | +17 | 34 |
3. Grindavík/Njarðvík | 16 | 10 | 2 | 4 | 38 - 21 | +17 | 32 |
4. Grótta | 16 | 10 | 1 | 5 | 34 - 25 | +9 | 31 |
5. KR | 16 | 7 | 1 | 8 | 35 - 40 | -5 | 22 |
6. ÍA | 16 | 6 | 3 | 7 | 24 - 29 | -5 | 21 |
7. Haukar | 16 | 6 | 1 | 9 | 24 - 37 | -13 | 19 |
8. Keflavík | 16 | 4 | 4 | 8 | 23 - 26 | -3 | 16 |
9. Fylkir | 16 | 2 | 2 | 12 | 19 - 42 | -23 | 8 |
10. Afturelding | 16 | 2 | 0 | 14 | 12 - 58 | -46 | 6 |
Athugasemdir