Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mán 20. ágúst 2012 14:00
Sammarinn.com
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Kemst Ísland á stórmót með þessa vörn?
Björn Berg Gunnarsson skrifar
Sammarinn.com
Sammarinn.com
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það vantar ekki frábæra leikmenn í íslenska landsliðið, en því miður eru þeir allir á miðju eða í sókn, ef frá er talinn Grétar Rafn Steinsson. Sem betur fer eigum við mjög góða djúpa miðjumenn, en vörnina verður að styrkja.

Vináttuleikur Íslands og Færeyja um daginn var eflaust gagnlegur fyrir Lars og Heimi, en þeir 7.000 áhorfendur sem með naumindum náðu leiknum vegna klúðurs í miðasölu KSÍ fengu afar lítið fyrir aurinn sinn. Kolbeinn Sigþórsson sýndi það enn og aftur hversu góður hann er og ánægjulegt var að ná að skora tvö mörk, en því miður sást lítið til annarra leikmanna.

Við höfum sennilega aldrei átt jafn gott úrval sóknar- og miðjumanna. Gylfi, Aron, Birkir og Kolbeinn eru allir fyrirmyndarleikmenn sem ég geri ráð fyrir að verði í lykilhlutverki næstu árin og vonandi förum við að sjá aðeins meira til Rúriks og Jóhanns á köntunum. Björn Bergmann og Alfreð Finnboga hljóta að pressa stíft á byrjunarliðssæti og Eggert Gunnþór hlýtur að koma til greina á miðjuna þegar leikið er gegn sterkari liðum. Ef Eiður Smári kemur sér aftur í gang er hann sennilega ennþá besti leikmaður liðsins og það er því hverjum manni ljóst að það vantar ekki gæðin í liðið þegar við erum með boltann.

Sú merkilega breyting hefur þó orðið á íslenska landsliðinu undanfarna tvo áratugi að nú er vörninn okkar veikasti hlekkur. Áður fyrr gátum við stillt upp Birki Kristins í marki og gríðarlega sterkum varnarmönnum og leiðtogum á borð við Guðna Bergsson, Eyjólf Sverrisson og Hermann Hreiðarsson þar fyrir framan. Það hefur vantað menn í sama gæðaflokki til að taka við. Markmannsstaðan er meiriháttar vandamál og Bjarni Ólafur og Birkir Már hafa því miður sýnt okkur margoft að þeir eru ekki nógu góðir til að vera byrjunarmenn í landsliðinu, amk. ekki ennþá. Grétar Rafn verður að vera í hægri bakverði og ég bind vonir við að Hjörtur Logi festi sig í sessi vinstra megin en þá er miðvarðastaðan eftir.

Ragnar Sigurðsson og Sölvi Geir Ottesen hafa ekki verið að spila hlið við hlið í vörn FCK, en það hefði getað orðið mjög góð lausn á miðvarðavandamálum Íslands. Að eiga tvö öfluga samherja í þessari stöðu sem þekkja hvor annan hljómar vel, en því miður virðist ætla að stefna í áframhaldandi rót á vörn íslenska liðsins og leitin heldur áfram. Kári Árnason er fínn fótboltamaður en ég efast um að hann verði miðvörður í liði sem fer á HM. Kannski rætist úr mönnum eins og Elfari Frey og Jóni Guðna, en ég er ennþá að bíða eftir öðrum Hermanni Hreiðars í vörnina. Sumir hafa talað um að Eggert Gunnþór geti farið niður í miðvörðinn og mér líst ágætlega á þá hugmynd á meðan vandræðin eru þetta stór.

Markvarðastaðan hefur auk þessa valdið vonbrigðum. Árni Gautur tók við af Birki á sínum tíma og var sennilega okkar skásti kostur á þeim tíma. Það virtist allt benda til að Stefán Logi tæki við hönskunum, en hann hefur ekki nýtt sín tækifæri vel og ekki fengið marga sénsa til að bæta fyrir mistök. Hannes Þór er góður markvörður í íslenska boltanum en við sáum á móti Svíum og Frökkum að það vantaði aðeins upp á öryggið sem er svo nauðsynlegt í landsleikjum. Gunnleifur er svipaður þessum fyrrnefndu, fínn markmaður en verður ekki í marki til frambúðar. Það var flott að velja Ingvar Jónsson í hópinn, enda þarf að hvetja efnilega markmenn áfram og gefa þeim tækfæri. Eitt mikilvægasta verkefni Lars og Heimis verður að finna markvörð sem kemur til með að standa í rammanum næstu 5-10 árin.

Þrátt fyrir vandræðin í vörninni bind ég miklar vonir við þetta íslenska lið. Hópurinn er það sterkur að við eigum að leggja allt í sölurnar í komandi riðlakeppni. Ef Lars og Heimir ná að raða saman í agaða og sterka vörn sem tekur ekki of miklum breytingum milli leikja getur allt gerst, enda verður sóknin mjög sterk og nóg af mönnum til að skora mörk. Það sást á þeim fjölda sem lagði leið sína í Laugardalinn að fylgjast með vináttuleik gegn Færeyingum að það er aftur vöknuð stemning fyrir landsliðinu. Nú þurfa strákarnir að nýta sér meðbyrinn og hver veit nema þeir skjóti okkur á HM í Brasilíu.
Athugasemdir
banner
banner