Ólafur Kristjánsson, einn fremsti þjálfari Íslands, er með íslenska hópnum í Annecy og fylgdist með æfingunni í dag. Fótbolti.net ræddi við Ólaf um hans hlutverk fyrir KSÍ.
„Ég hef verið að fylgjast með Portúgal í aðdraganda keppninnar og aflað upplýsinga um þá. Ég hef farið á þá leiki sem þeir hafa spilað og gefið skýrslu til Heimis og Lars. Ég er til taks í sambandi við Portúgal ef það er eitthvað sem þeir vilja vita um," segir Ólafur.
„Portúgal er með mjög gott lið. Þessi önnur gullkynslóð Portúgala er farin að eldast aðeins og þeir eru sterkir, góðir einstaklingar. Þjálfarinn þeirra hefur náð að koma aga í þetta lið finnst mér."
Flestra augu í umræddum leik munu beinast að Cristiano Ronaldo.
„Hann er frábær leikmaður en liðum hefur tekist að stöðva hann. Það er spurning hvernig dagsformið á honum er. Hann getur verið heitur og kaldur. Þegar hann er heitur er hann svakalegur. Hann hafði það gott á Ibiza í síðustu viku."
Ekkert sérstakt að sitja heima
Á dögunum var Ólafur ráðinn þjálfari Randers í dönsku úrvalsdeildinni. Ólafur var látinn fara frá Nordsjælland í vetur en segir það gott að hafa fengið starf nokkuð fljótlega eftir það.
„Að sitja heima og geta ekki farið út á völl að þjálfa er ekkert sérstakt. Það er gott að fá möguleikann fljótt aftur, það er ekki gott að sitja of lengi á þessum brautarpalli því þá gleymist maður bara. Ég er mjög ánægður með að þetta hafi komið upp og klárast," segir Ólafur.
Hver er munurinn á þessum tveimur félögum; Nordsjælland og Randers?
„Nordsjælland er félag sem hefur byggst upp á því að taka sína eigin leikmenn upp og voru síðast í gær að selja leikmann til Dortmund. Það er frábært fyrir drenginn og klúbbinn. Randers er með eldri hóp og aðeins öðruvísi verkefni."
Umræddur leikmaður sem Nordsjælland var að selja er Emre Mor, 18 ára tyrkneskur strákur sem fékk tækifæri undir stjórn Ólafs.
Sjáðu viðtalið við Ólaf í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir