„Við vorum slakir í fyrri, en allt annað í seinni og ég er mjög ánægður með seinni hálfleikinn, þannig að ég held að þetta hafi bara verið ágætis fótboltaleikur," sagði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar eftir 2-2 jafntefli gegn Víkingi á heimavelli.
Leikurinn var skemmtilegur og kaflaskiptur en gestirnir voru mikið sterkari í fyrri hálfleiknum en Stjarnan kom út eins og annað lið í seinni hálfleik.
„Við bara spjölluðum saman, eins og alltaf. Ég hef eitthvað að segja og þeir hafa helling að segja og við förum bara yfir það sem þarf að gera betur og það gekk ágætlega," sagði Jökull.
Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 2 Víkingur R.
Jökull nýtti allar sínar skiptingar og má segja að varamennirnir hafi breytt leiknum. Jóhann Árni Gunnarsson kom t.a.m. inn á og gaf flotta stoðsendingu.
„Við erum himinlifandi með hópinn - bæði liðinu sem við getum stillt upp og þeim sem eru fyrir utan og þeir sem eru þar fyrir utan. Við erum með sterka menn þar líka, þannig að það er þétt liðsheild og ég er hrikalega ánægður með þennan hóp," sagði Jökull.
Viðtalið í heild má sjá hér að ofan.