„Þetta var dálítið kaflaskipt. Fyrri hálfleikurinn var frábær af okkar hálfu og myndi ég flokka hann sem okkar besta fyrri hálfleik í sumar. Við vorum algjörlega með yfirhöndina og stjórn á leiknum. Þeir áttu engin svör við okkur," sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings eftir 2-2 jafntefli við Stjörnuna á Samsungvellinum í kvöld.
Víkingar spiluðu óaðfinnanlega í fyrri hálfleik og benti allt til þess að þeir myndu sigra þennan leik, með nokkrum yfirburðum. Hins vegar var það ekki raunin og komu heimamenn yfirsterkari inn í seinni hálfleik.
„Seinni hálfleikurinn byrjar ágætlega en fljótlega missum við stjórn á leiknum og hann fer meira í opinn leik og Stjarnan nær að leysa betur úr pressunni okkar, sem var góð í fyrri hálfleik. Hvort að sólin, hitinn og orkan sem við lögðum í fyrri hálfleikinn hafi eitthvað spilað þar inn í," sagði Sölvi.
Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 2 Víkingur R.
Víkingsmenn skoruðu bæði mörkin sín úr hornspyrnu. Stjarnan réð ekkert við hættulegar spyrnur þeirra í leiknum.
„Við erum í raun og veru byrjaðir að æfa föst leikatriði miklu minna en við gerðum í fyrra. Nú hef ég bara ekki tíma að grúska svona mikið í þessu. Ég er búinn að láta þetta alveg í hendur á Grím í teyminu okkar, sem betur fer. Við erum búnir að vera mjög sterkir í föstum leikatriðum," sagði Sölvi.
Víkingur situr í öðru sæti Bestu deildarinnar á eftir Breiðabliki með 13 stig.
„Já að vissu leyti. Það er búið að ganga mikið á á tímabilinu og mikið um meiðsli og svona skrítið undirbúningstímabil en menn að koma til baka úr meiðslum, þannig að já þokkalega sáttur. HIns vegar er maður aldrei fullkomlega sáttur, nema maður sé á toppnum," sagði Sölvi Geir aðspurður hvort hann sé sáttur við byrjun lærisveina hans á tímabilinu.
Viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.