Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   mán 27. júní 2016 23:06
Magnús Már Einarsson
Nice
Raggi Sig: Hélt að Vardy væri aðeins sneggri
Icelandair
Ragnar með fulll tök á Daniel Sturridge í leiknum í kvöld.
Ragnar með fulll tök á Daniel Sturridge í leiknum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ef maður miðað við hvað þetta var þýðingarmikill leikur á háu leveli þá hlýtur þetta að hafa verið leikur lífs míns," sagði Ragnar Sigurðsson sem átti stórkostlegan leik þegar Ísland vann 2-1 sigur á Englandi á Evrópumótinu í Frakklandi og komast þar með í 8 liða úrslitum gegn Frökkum.

„Ég verð að viðurkenna að ég var svolítið peppaður fyrir þennan leik og stressið kikkaði svo á hótelinu þegar ég var farinn að hugsa allt of mikið um leikinn. Ég fíla það þegar stressið kemur því þá veit maður að manni er ekki sama og er að fara að geta hlaupið extra mikið. Ég var bara ánægður með það."

„Við spiluðum mjög þéttan varnarleik og lentum ekki mikið í erfiðri aðstöðu. Ég og Kári vorum ekki að lenda mikið einn á einn. Ef maður er með einbeitinguna í lagi og svona marga menn fyrir framan sig þá á þetta ekki að vera það mikið vandamál."


Ragnar hljóp einn fljótasta leikmann ensku deildarinnar, Jamie Vardy, uppi seint í leiknum og náði fullkominni tæklingu til að stoppa hann. Hvernig fann hann þennan kraft?

„Ég var bara ekkert þreyttur í seinni hálfleik, ég var bara ferskur. Ég fann reyndar að kálfarnir voru aðeins farnir að titra og ég fékk krampa á leiðinni. Sem betur fer kom það ekki upp í þessum spretti, en ég hélt bara að hann væri aðeins sneggri."

Íslenska liðið er að gera ótrúlega hluti og komið í 8 liða úrslit Evrópumótsins. Liðið hefur ekki enn tapað leik á mótinu.

„Auðvitað er þetta ógeðslega stórt fyrir okkur öll, en þetta kemur okkur ekkert á óvart. Við förum ekki í leikinn til að tapa honum, heldur til að vinna hann og auðvitað höfum við trú á því. Kannski á þetta eftir að koma inn aðeins seinna að maður fattar hversu stórt þetta er. Að mínu mati á þetta ekki að koma á óvart, við vitum alveg hvað við getum."

Englendingar komust yfir í byrjun leiksins en Ísland svaraði að bragði með tveimur mörkum. Var gott fyrir liðið að fá mark á sig snemma til að keyra sig í gang?

„Maður getur alltaf pælt í því eftir á hvort það var gott eða ekki en auðvitað var skellur að fá á sig mark eftir 3 mínútur. En ég fékk bara sömu tilfinningu og í tékkaleiknum þegar við lentum undir. Maður vissi að maður myndi jafna og jafnvel komast yfir. Við vorum heppnir að það kom fljótt eftir markið þeirra."

Ragnar skoraði jöfnunarmarkið sjálfur og sagði um það: „Þetta var klassískt framherjamark. Maður veit alveg hvert þessi löngu innköst fara og vissi að Kári myndi vinna skallann og ég las fullkomnlega hvar hann myndi koma niður og náði að tímasetja þetta vel. Ég veit ekki hvort ég var 1 eða 2 metra frá markinu en þurfti bara að setja hann."
Athugasemdir
banner
banner