„Ég er á því að við höfum átt þetta fyllilega skilið," sagði Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, eftir sigurinn magnaða á Englandi í kvöld.
„Við fengum á okkur mark snemma en það kveikti í okkur. Við nálguðumst leikinn á rólegan og yfirvegaðan hátt. Það voru nokkrar mínútur þar sem við náðum upp okkar spili og seinna markið okkar var frábært."
Komu Englendingum á óvart
Frammistaða íslenska liðsins var virkilega góð í kvöld og sú besta á EM til þessa.
„Við gerðum þetta vel. Ef við hefðum tapað þessum leik þá hefðum við samt komið út af vellinum og verið ánægðir með frammistöðuna. Það er mikilvægt því að við þurfum að halda áfram að bæta okkur," sagði Aron sem segir að Ísland hafi komið Englendingum á óvart.
„Þeir reiknuðu ekki með okkur svona. Þeir áttuðu sig ekkert á íslensku geðveikinni. Við gerðum þetta rétt og gerðum þetta vel. Það kom þeim í opna skjöldu hversu hátt við pressuðum þá. Við ætluðum að koma þeim á óvart frá byrjun og þeir réðu ekkert við okkur."
Tvísýnn á að halda áfram í seinni hálfleik
Aron hefur verið að glíma við meiðsli í kringum mótið en hann var á fullu allan leikinn í kvöld. Undir lokin átti hann meðal annars sprett sem endaði með skoti sem Joe Hart varði.
„Aðalmálið var að ég var byrjaður á sprettinum og gat ekkert hætt við hann," sagði Aron og brosti aðspurður út í sprettinn eftir leik.
„Ég var tvísýnn á að halda áfram í seinni hálfleik. Ég var farinn að finna smá aftur til í náranum en einhvernegin komst ég í gegnum þennan leik. Ég held að adreníalínið hafi kikkað aðeins inn. Ég held ég finni aðeins fyrir þessu á morgun en það er endurhæfing í fimm daga og æfing daginn fyrir leik, þá er ég klár," sagði Aron sem hefur lítið æft á milli leikja í Frakklandi.
„Það tekur á að fara í 100% leiki vöðvalega séð og sumir vöðvar gefa sig. Sjúkraþjálfarateymið hefur gert fáránlega hluti með því að koma mér í gang fyrir þessa leiki. Ég skil ekki hvernig þeir hafa farið að því," sagði Aron.
Athugasemdir