„Þetta var frábær liðsandi og þvílík vinnsla," sagði Ari Freyr Skúlason, vinstri bakvörður Íslands eftir 2-1 sigurinn á Englandi í kvöld.
Ísland lenti undir strax á 3. mínútu en Ragnar Sigurðsson var fljótur að jafna. „Ég tel að það hafi verið gott fyrir okkur að fá mark snemma í andlitið. Raggi Sig kom strax og slengdi stórum þorsk í smettið á þeim og þá var þetta orðið jafnt aftur," sagði Ari en íslenska liðið barðist ótrúlega allan leikinn.
„Maður var orðinn svolítið þreyttur en strákarnir voru öskrandi allan tímann og við vorum að berjast. Ég veit ekki hvar Aron fann þess orku þegar hann var næstum búinn að skora. Þetta er eitthvað sem við erum tilbúnir að fórna fyrir hvorn annan," sagði Ari sem talaði sérstaklega um tæklingu sem Ragnar Sigurðsson átti í síðari hálfleik.
„Þessi tækling Ragga Sig á Vardy sýnir andann og styrkleikann okkar. Við erum duglegir og við viljum gera svo vel fyrir hvern annan. Ef ég tel ekki börnin mín með þá er þetta það stærsta sem ég hef afrekað í lífinu."
Enskir sparkspekingar töldu að Ari væri veikur hlekkur í íslenska liðinu en hann segist ekki hafa séð þá ummræðu.
„Ég vissi ekki neitt um það. Ég fann samt strax í byrjun að (Daniel) Sturridge var alltaf í rassgatinu á mér og alltaf að reyna að plata mig niður eða úr stöðu. Hann er fljótari og sterkari en ég og í fyrri hálfleik fékk hann nokkur hálffæri á móti mér. Við sem liðsheild náðum að loka því vel og í seinni hálfleik hafði ég engar áhyggjur," sagði Ari.
Athugasemdir