„Þetta er það sem við höfðum trú á og við vissum alveg að við gætum gert þetta," sagði Kári Árnason miðvörður Íslands eftir 2-1 sigur á Englendingum í 16 liða úrslitum Evrópumótsins í Frakklandi í kvöld.
„Við höfðum þá fullkomlega undir stjórn og þeir sköpuðu í raun engin færi. Þeir fá svo víti sem er vissulega klaufalegt en ef maður lítur aftur á þetta þá er það besta sem gerðist í leiknum. Það neyddi okkur fram á við og við þurftum að sækja og taka sénsa. Við skoruðum svo strax og ég veit ekki hvað leið langur tími þar til við vorum komnir yfir. Við erum búnir að lenda yfir í leikjunum og það hefur ekkert hentað okkur voðalega vel því við höfum orðið passívir eftir það. Því var góð tilbreytni að lenda undir og þurfa að girða sig í brók.
Ísland vann 2-1 sigur á Austurríki á dögunum og þá voru mótherjarnir alltaf að búa til opnanir á íslenska liðið, Englendingarnir gerðu það aldrei í kvöld.
„Nei,við höfðum fulla stjórn á þeim. Mér fannst Austurríki geta opnað okkur betur á miðjunni. Í dag fannst mér við spila betri varnarleik sem heild. Þetta var svolítil nauðvörn á móti Austurríki en í dag var þetta eins og við spiluðum á móti Hollandi. Þeir sköpuðu engin færi og ef þeir komumst á milli línanna þá vorum við Raggi, Ari og Birkir með það coverað."
Kári átti frábæran leik í kvöld og Ragnar Sigurðsson sem spilar miðvarðarstöðuna honum við hlið fær einnig mikið hrós.
„Við erum frábærir saman. Ég get ekki lýst því með orðum hversu góður Raggi er og gott að spila með honum. Hann er kominn í eitthvað rugl, byrjaður að taka hjólhestaspyrnur. Það hefði verið eins og í lélegri B-mynd ef hann hefði sett hann með hjólhestaspyrnu í lokin. Hann er frábær leikmaður og það kæmi mér mjög á óvart ef Liverpool myndi ekki bjóða í hann."
Næsti leikur er í 8 liða úrslitum gegn gestgjöfunum, Frökkum í París.
„Það er annar erfiður leikur. Við tökum þetta einn leik í einu eins og við höfum alltaf gert. Markmiðið fyrir þann leik er að vinna hann og við verðum bara að gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera það."
Athugasemdir