„Það er frábær tilfinning að vera kominn í gula búninginn aftur. Þeir segja að heima sé best," sagði varnarmaðurinn Bergsveinn Ólafsson við Fótbolta.net eftir að hann gekk til liðs við Fjölni á nýjan leik í dag.
Bergsveinn var ekki inni í myndinni hjá Ólafi Kristjánssyni sem tók við þjálfun FH síðastliðið haust.
„Í stuttu máli má orða það þannig. Við áttum í raun og veru ekki samleið og stundum er það svoleiðis. Sumir þjálfarar fíla suma leikmenn. Það er ekkert persónulegt og ég tek þetta ekki nærri mér. Svona er þetta stundum og þá er frábært að fá þennan pól."
Bergsveinn er uppalinn hjá Fjölni en hann hefur leikið með FH undanfarin tvö ár. „Ég átti mjög góða tíma hjá FH og hef ekkert nema gott að segja um klúbbinn. Það er frábær umgjörð þar og allt starfsfólk í kringum FH er frábært. Ég átti mjög góða tíma þarna og sérstaklega fyrra árið. Það var líka gaman á síðasta ári þó að við höfum ekki gert gott mót."
Fjölnir endaði í 10. sæti í Pepsi-deildinni síðastliðið sumar en markið er sett hærra í sumar. „Það er þvílíkur uppgangur hjá félaginu. Það eru margir ungir og efnilegir leikmenn að koma upp hjá félaginu og ég ætla að hjálpa Fjölni að taka næsta skref. Ég ætla að vera hluti af þessum uppgangi hjá Fjölni og reyna að miðla eins miklu af mér og ég get. Ég er spenntur að byrja," sagði Bergsveinn.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir