„Ég held að þetta sé nokkuð góður tími til að koma aftur í voginn og ég er ánægður með það," sagði Guðmundur Karl Guðmundsson eftir að hann skrifaði undir samning við Fjölni í dag.
Guðmundur Karl er kominn aftur í Grafarvoginn eftir að hafa leikið með FH á síðasta tímabili. Hann sér ekki eftir að hafa spilað með FH í fyrra þrátt fyrir að gengi liðsins hafi verið undir væntingum.
„Þetta var mjög mikill skóli fyrir mig ég hafði mjög gaman að því. Þetta var hrikalega erfitt en mjög skemmtilegur tími. Ég sé alls ekki eftir því að hafa farið í FH þó að þetta hafi einungis verið þetta eina ár."
„Ég held að ég hafi bætt mig fótboltalega og síðast en ekki síst andlega. Ég var mikið inn og út úr liðinu og ég held að ég komi sterkari til Fjölnis bæði líkamlega og andlega."
Fjölnir endaði í 10. sæti í Pepsi-deildinni í fyrra en fallbarátta er ekki á dagskrá í Grafarvoginum í sumar.
„Verðum við ekki að reyna að vera aðeins ofar. Ég held að liðið hafi mikla burði til þess. Miðað við það sem maður hefur séð í þessum undirbúningsleikjum núna þá lítur þetta mjög vel út. Það eru margir ungir og ferskir strákar og ég held að ég og Beggi getum báðir styrkt liðið," sagði Guðmundur Karl.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir