mið 25. apríl 2018 10:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í Inkasso-deildinni: 10. sæti
Magnamenn eru komnir í Inkasso-deildina.
Magnamenn eru komnir í Inkasso-deildina.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Gunnar Örvar Stefánsson kom frá Þór í vetur.
Gunnar Örvar Stefánsson kom frá Þór í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Reynsluboltinn Pétur Heiðar Kristjánsson.
Reynsluboltinn Pétur Heiðar Kristjánsson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Inkasso-deildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. Magni 73 stig
11. Njarðvík 53 stig
12. ÍR 50 stig

10. Magni
Lokastaða í fyrra: 2. sæti í 2. deild
Magni komst upp í Inkasso-deildina síðastliðið haust eftir að hafa endað í 2. sæti í 2. deildinni í fyrra. Magnamenn spiluðu síðast í næstefstu deild árið 1979 en mikill fótboltaáhugi er á Grenivík og góð stemning á vellinum þar. Einungis þrjú ár eru síðan Magni vann 3. deildina en nú er liðið í næstefstu deild.

Þjálfarinn: Páll Viðar Gíslason kom liði Magna upp um deild á sínu fyrsta ári sem þjálfari. Páll var áður þjálfari Þórs í áraraðir en hann kom liðinu meðal annars í bikarúrslit 2011. Eftir að hafa stýrt Völsungi í tvö ár þá tók Páll síðan við Magna haustið 2016.

Styrkleikar: Stemningin og samheldnin í Magnaliðinu er mögnuð eins og má meðal annars sjá á þessu myndbandi síðan í fyrra. Þónokkuð margir leikmenn úr liðinu hafa áður spilað í Inkasso-deildinni og reynslan hjá Magna er góð. Hópurinn er sterkari og breiðari í fyrra eftir leikmannagluggann í vetur og Grenvíkingar mæta fullir sjálfstrausts til leiks í Inkasso-deildinni.

Veikleikar: Magni fékk tæplega tvö mörk á sig í leik í fyrra sem og í Lengjubikarnum í vetur. Vörnin verður að vera þéttari í sumar ef ekki á illa að fara. Magnamenn áttu það til að misstíga sig gegn slakari andstæðingum í 2. deildinni í fyrra og á köflum vantaði stöðugleika. Uppgangurinn hefur verið hraður hjá Magna undanfarin ár og slæmu stundirnar fáar. Spurning er hvernig liðið bregst við ef það lendir í mótlæti í sumar.

Lykilmenn: Davíð Rúnar Bjarnason, Gunnar Örvar Stefánsson og Sveinn Óli Birgisson.

Gaman að fylgjast með: Þorgeir Ingvarsson. Ungur og uppalinn Grenvíkingur sem ólst að hluta upp hjá Fjölni og er samningsbundinn Grafarvogsliðinu. Kom við sögu hjá Magna í Lengjubikarnum í vetur og sýndi flott tilþrif. Afar leikinn með boltann og gæti strítt varnarmönnum Inkasso-deildarinnar í sumar.

Komnir:
Agnar Darri Sverrisson frá Víkingi R.
Bjarni Aðalsteinsson frá KA á láni
Brynjar Ingi Bjarnason frá KA á láni
Davíð Rúnar Bjarnason frá KA
Gunnar Örvar Stefánsson frá Þór
Kristján Freyr Óðinsson frá KA
Marinó Birgisson frá Þór
Sigurður Marinó Kristjánsson frá Þór
Steinþór Már Auðunsson frá Þór

Farnir:
Dagur Már Óskarsson hættur
Kristján Sigurólason hættur
Ýmir Már Geirsson í KA (Var á láni)

Fyrstu þrír leikir Magna
5. maí HK - Magni
12. maí Haukar - Magni
19. maí Magna - Víkingur Ó.
Athugasemdir
banner
banner
banner