mán 21. janúar 2019 12:31
Elvar Geir Magnússon
Orri: Rosalega lítið pláss í klefanum núna
Orri Sigurður Ómarsson.
Orri Sigurður Ómarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það fer enginn út til að vera í eitt ár. Þetta gekk ekki upp," segir varnarmaðurinn Orri Sigurður Ómarsson sem er aftur kominn til Íslandsmeistara Vals eftir eins árs veru í herbúðum Sarpsborg.

Orri var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardaginn og talaði meðal annars um misheppnaða dvöl sína í Noregi. (Viðtalið hefst eftir tæplega 45 mínútur í upptökunni)

Orri vill vera í umhverfi þar sem samkeppnin er hörð og þannig er það svo sannarlega hjá Val. Hann segir að ekki hafi komið til greina að fara í eitthvað annað íslenskt félag.

„Nei, það kom ekki til greina. Það voru einhver önnur félög búin að ræða við umboðsmanninn og pabba en ég sagði alltaf 'ekki séns'. Það er bara einhver ára yfir Val. Kannski er það því maður þekkir allt en það er allt til staðar á Hlíðarenda," segir Orri sem er uppalinn hjá HK. Þrátt fyrir að Kópavogsliðið sé komið upp í Pepsi-deildina var það ekki í myndinni.

„Það eru líka svo margir farnir síðan ég var þarna. Leifur Andri og tveir aðrir eru þeir sem ég þekki. Tengingarnar eru ekki mjög margar. Það kom ekkert annað til greina en Valur"

Valsmenn hafa verið duglegir á leikmannamarkaðnum í vetur og breiddin er gríðarleg. Orri er í samkeppni um sæti í hjarta varnarinnar við Eið Aron Sigurbjörnsson, Rasmus Christiansen og Sebastian Hedlund.

„Ég hefði ekki farið í Val ef ég hefði ekki viljað samkeppni. Við ætlum okkur að vera í öllum keppnum og spila marga leiki í öllum keppnum. Það er bara janúar enn og það getur hellingur gerst. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég labba ekkert inn í liðið. Það eru flottir gaurar að banka á dyrnar um leið og maður gerir mistök. Þetta er spennandi og ég tel að við getum gert enn betur en í fyrra," segir Orri.

Valsmenn hafa fengið til sín öfluga leikmenn.

„Klefastemningin er troðin núna, ég get sagt þér það! Það er rosalega lítið pláss í klefanum núna. Það er kominn einhver arkitektúr sem á að fara að brjóta niður veggi!"

„Við erum komnir með mjög skemmtilega leikmenn. Það hefur verið talað um að það hafi vantað 'standa upp úr sætum' leikmenn í deildina. Við erum komnir með svakalega marga þannig, leikmenn sem er virkilega gaman að horfa á. Ég get lofað því að það verður mjög gaman á Hlíðarenda í sumar," segir Orri.

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Orra (Það hefst eftir tæplega 45 mínútur í upptökunni)
Athugasemdir
banner
banner
banner