Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 11. mars 2019 16:30
Arnar Daði Arnarsson
Úr Inkasso í Championship-deildina á innan við ári
Patrik í leik með ÍR í Inkasso-deildinni síðasta sumar.
Patrik í leik með ÍR í Inkasso-deildinni síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarson spilaði sinn fyrsta leik í Championship deildinni á laugardaginn þegar hann kom inná í mark Brentford gegn Middlesbrough í 2-1 sigri Brentford.

Létt stress og fiðringur
„Þetta kom svolítið óvænt upp og ég bjóst ekkert við því að vera fá tækifæri með aðalliðinu svona snemma. Ég er bara búinn að vera hér í níu mánuði. Tækifærið kom fljótt og óvænt sem er auðvitað bara skemmtilegt," sagði Patrik en Daniel Bentley aðalmarkvörður Brentford í leiknum meiddist þegar hálftími var eftir af leiknum.

„Það var létt stress og fiðringur í manni á hliðarlínunni þegar ég vissi að ég væri að fara inná. Ég hafði alveg 15 mínútur til að undirbúa mig. Bentley reyndi að halda áfram en á 75. mínutu þá treystir sér hann ekki í meira og mér var skipt inná," sagði hinn 18 ára Patrik Sigurður.

„Markmannsþjálfarinn kom til mín og var að reyna peppa mig áður en ég fór inná. Hann talaði aðeins við mig og sagði mér að þetta væri bara venjulegur leikur, 11 á móti 11, jafn stór bolti en kannski aðeins fleiri áhorfendur en vanalega. Ég ætti að fara inná og gera það sem ég er vanur að gera og spila fótbolta," sagði Patrik sem gekk í raðir Brentford frá Breiðablik í byrjun júní.

Komst ekki í æfingahóp hjá Breiðabliki
Hann hóf sumarið 2018 á láni hjá ÍR í Inkasso-deildinni.

„Ég var eiginlega bara 2.flokks leikmaður hjá Breiðablik með samning við meistaraflokk. Ég fékk ekkert tækifæri hjá Breiðablik og æfði lítið sem ekkert með meistaraflokki. Við ákváðum það í sameiningu að það væri best að ég færi á lán. Ég var kominn með nóg af þessum 2. flokks bolta og þurfti að fara spila alvöru fótbolta og þá sérstaklega að fá að æfa með meistaraflokksliði. Ég fékk varla meistaraflokksæfingu með Breiðablik."

„Binni (Brynjar Þór Gestsson, þjálfari ÍR) hafði samband eftir að ÍR spilaði æfingaleik á móti U-19 þar sem ég var í markinu. Eftir það var ég fljótlega kominn í ÍR á láni þar sem ég var þeirra fyrsti markvörður og fékk að spila. Það var fínt að fá að spila í Inkasso-deildinni, 17 ára."

„Ég var eiginlega búinn að ná samkomulagi við Brentford stuttu eftir að ég fer í ÍR. Ég læt ÍR-ingana vita af því og þeir taka vel í það. Ég spilaði þá leiki sem eftir voru hjá ÍR áður en ég fór til Brentford og flutti síðan út í byrjun júní," sagði Patrik en enska félagið var búið að fylgjast með Íslendingnum efnilega í þónokkurn tíma bæði með unglingalandsliðum Íslands og með 2.flokksliði Breiðabliks sem tók þátt í Evrópukeppni unglinga.

Brentford fer á erfiðan útivöll á morgun og mætir Sheffield United sem sitja í 3. sæti Championship deildarinnar í harðri baráttu við Leeds United og Norwich um öruggt sæti upp í Premier Leauge.

Var í D og F liði til að byrja með
Patrik býst við hörkuleik en segist ekki vita hvort hann fái tækifæri í byrjunarliðinu.

„Aðalmarkvörðurinn er ekki heill en annar af þeim markmönnum sem hefur verið meiddur er orðinn heill þannig ég veit ekki hvort ég spili á morgun. Ég ferðast allavegana með liðinu og síðan kemur í ljós á morgun, þegar þjálfarinn tilkynnir liðið hvort ég sé að fara spila. Auðvitað heldur maður í vonina og ég verð tilbúinn ef kallið kemur."

Faðir Patriks, er fyrrum markvörðurinnGunnar Sigurðsson sem lék lengst um hér á landi með Fram, ÍBV og FH og á að baki tæpa 200 meistaraflokksleiki.

„Hann á sinn þátt í mér. Hann hefur alltaf stutt við bakið á mér og hefur alltaf verið tilbúinn að hjálpa mér og leiðbeina mér. En hann hefur þó ekkert verið að skipta sér of mikið af því hvað ég hef verið að gera. Við gerum okkar hluti og svo geri ég aðra hluti með markmannsþjálfaranum hjá félaginu," sagði Patrik en knattspyrnuferill hans byrjaði frekar hægt ef hægt er að orða það svo.

„Ég var ekkert allaf frábær í yngri flokkunum. Ég var alltaf í D og F liði þangað til í 5.flokki þá var ég kannski kominn í B-liðið svo í 4.flokki þá var ég kominn í A-liðið," sagði Patrik að lokum en hann hefur leikið með yngri landsliðum Íslands undanfarin ár.
Athugasemdir
banner
banner
banner