Elmar Atli Garðarsson (Vestri)
Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði Vestra, var maður leiksins þegar Vestri vann 2-0 sigur gegn Selfossi í toppbaráttuslag í 2. deild karla um helgina. Elmar Atli er leikmaður 13. umferðarinnar hjá Fótbolta.net.
„Þessi leikur var gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið og það sást á fyrstu mínútunum að það var mikið undir," segir Elmar. „Fyrri hálfleikur var frekar gæðalítill, mikið um misheppnaðar sendingar og hvorugt liðið að skapa sér góð færi. Í seinni hálfleik fannst mér við keyra yfir þá, við sköpuðum nokkur mjög góð færi og vorum þéttir til baka."
„Við náum inn flottu marki snemma í seinni hálfleik og eftir það var þetta aldrei í hættu. Það var virkilega gaman að sjá stórvin minn Viktor Júlíusson opna markareikninginn sinn í sumar með frábæru marki sem lokaði þessum leik fyrir okkur."
Elmar leikur í miðverði og þurfti hann að takast á við markahæsta leikmann deildarinnar, Hrvoje Tokic hjá Selfossi.
„Það er alltaf gaman að spila við góða leikmenn. Tokic er hörku spilari með mikil gæði, en mér fannst hann ekki gera mikið í þessum leik. Ég og Frikki (Friðrik Þórir Hjaltason), sem spilar með mér hafsent, gerðum mjög vel í að loka á hann og gáfum honum engan tíma á boltann."
Búnir að vera upp og niður
Fyrir tímabilið var Vestra spáð efsta sæti af þjálfurunum í deildinni. Með sigrinum á Selfossi komst Vestri upp í annað sætið, en það hefur vantað stöðugleika í Vestra það sem af er af sumri. Liðið vann topplið Leiknis F. í tíundu umferð, en tapaði svo gegn botnliði Tindastóls í næsta leik.
Hvað hefur Elmar um þetta að segja?
„Ég er sammála því að það hafi vantað stöðugleika. Við erum búnir að vera svolítið upp og niður það sem af er móts og höfum verið í brasi með að tengja saman nokkra sigurleiki í röð," segir fyrirliðinn.
„Útileikirnir hafa reynst okkur erfiðir og er það eitthvað sem við ætlum okkur að bæta. Samt erum við í öðru sæti eins og staðan er í dag sem sýnir hversu jöfn þessi deild er."
Hann segir að markmiðið hjá Vestramönnum sé klárlega að fara upp í Inkasso-deildina.
„Það er búið að vera markmiðið hjá okkur frá því í fyrra að fara upp úr þessari deild og höfum við alla burði til þess að gera það. Við erum með virkilega flottan hóp og mér finnst margir leikmenn hjá okkur eiga helling inni sem á vonandi eftir að nýtast okkur í þessum leikjum sem eftir eru."
Það er umtalað hvað 2. deildin er jöfn og spennandi. Það er ómögulegt að segja til um hvar liðin eiga eftir að enda í lok móts. Það munar aðeins sjö stigum á liðinu í efsta sæti og liðinu í níunda sæti.
„Virkilega spennandi og óútreiknanleg þessi deild. Það eru fullt af flottum liðum í þessari deild og fullt af góðum leikjum. Það virðist vera sem að öll lið geta stolið stigum af öllum og ekkert lið sem er að stinga af sem er bara gaman. Það verður klárlega spenna í þessu fram að seinasta leik."
Á sínu öðru tímabili sem fyrirliði Vestra
Reynsluboltinn Bjarni Jóhannsson stýrir Vestra annað tímabilið í röð. Hvernig er það að vinna með Bjarna?
„Bjarni er mjög fínn og það er rosalega þægilegt að vinna með honum," segir Elmar.
„Hann er þjálfari sem hentar mér persónulega mjög vel. Það eru fáir sem þekkja íslenskan fótbolta betur en hann og það hefur nýst okkur mjög vel í því sem við erum að gera hérna fyrir vestan."
Elmar er fæddur árið 1997 en er þrátt fyrir ungan aldur kominn með fyrirliðabandið hjá Vestra. Hann hefur gegnt því hlutverki síðustu tvö tímabil.
„Mér finnst mjög þægilegt að finna fyrir trausti frá þjálfurunum. Þetta hlutverk hentar mér mjög vel og mér finnst ég leysa það nokkuð vel, ég hef þroskast mikið í þessu hlutverki sem leikmaður síðustu ár og það er eitthvað sem á eftir að hjálpa mér þegar ég verð eldri. Fyrst og fremst mikill heiður að vera fyrirliði hjá mínu uppeldisfélagi og það er eitthvað sem ég verð alltaf mjög stoltur af," sagði Elmar Atli Garðarsson, leikmaður Vestra.
Bjarni Jóhannsson ræddi við Arnar Daða Arnarsson um þjálfaraferil sinn í mars. Smelltu hér til að hlusta á þáttinn.
Sjá einnig:
Bestur í 1. umferð: Isaac Freitas Da Silva (Vestri)
Bestur í 2. umferð: Kaelon Fox (Völsungur)
Bestur í 3. umferð: Aron Grétar Jafetsson (KFG)
Bestur í 4. umferð: Nikola Kristinn Stojanovic (Fjarðabyggð)
Bestur í 5. umferð: Mehdi Hadraoui (Víðir)
Bestur í 6. umferð: Ari Steinn Guðmundsson (Víðir)
Bestur í 7. umferð: Unnar Ari Hansson (Leiknir F.)
Bestur í 8. umferð: Þór Llorens Þórðarson (Selfoss)
Bestur í 9. umferð: Daniel Garcia Blanco (Leiknir F.)
Bestur í 10. umferð: Borja Lopez Laguna (Dalvík/Reynir)
Bestur í 11. umferð: Enok Eiðsson (Þróttur V.)
Bestur í 12. umferð: Kenan Turudija (Selfoss)
Stöðutaflan

L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
Athugasemdir