Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
banner
   mið 05. júní 2019 17:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bestur í 2. deild: Þurftum að sýna að það voru mistök
Mehdi Hadraoui (Víðir)
Mehdi Hadraoui er leikmaður umferðarinnar í 2. deild.
Mehdi Hadraoui er leikmaður umferðarinnar í 2. deild.
Mynd: Guðmundur Sigurðsson - Víðir Garði
Mehdi er á sínu þriðja tímabili á Íslandi. Hann kann mjög vel við land og þjóð.
Mehdi er á sínu þriðja tímabili á Íslandi. Hann kann mjög vel við land og þjóð.
Mynd: Guðmundur Sigurðsson - Víðir Garði
Mynd: Guðmundur Sigurðsson - Víðir Garði
Belginn Mehdi Hadraoui er leikmaður fimmtu umferðar í 2. deild að mati Fótbolta.net. Hann var maður leiksins þegar Víðir vann 3-1 sigur á Völsungi og skellti sér í annað sæti deildarinnar.

„Við þurftum að sýna það að það sem gerðist á Selfossi voru mistök," segir Mehdi við Fótbolta.net en fyrir sigurinn á Völsungi hafði Víðir tapað 5-1 gegn Selfossi.

„Við byrjuðum leikinn mjög vel og sköpuðum mörg færi. Við hefðum getað drepið leikinn í fyrri hálfleiknum en við nýttum ekki færin okkar og því var þetta alveg leikur fram á 80. mínútu þegar við komumst í 3-1. Þá var þetta búið og við náðum að landa stigunum þremur."

„Ég er ánægður með stigin þrjú og liðsframmistöðuna. Ég held að ég hafi gert það sem ég þurfti að gera þó ég hefði átt að skora eitt mark eða tvö. Ég fékk tvö mjög góð færi og því eru enn hlutir sem ég get gert betur."

„Ég tel að ég komi með reynslu og leiðtogahæfileika inn í okkar unga lið. Ég kann vel við þjálfarann og liðsfélaga mína."

Víðir var besti kosturinn
Mehdi er 31 árs gamall miðjumaður sem hefur leikið á Íslandi undanfarin þrjú tímabil. Hann gekk í raðir Vestra fyrir sumarið 2017, en undanfarin tvö sumur hefur hann leikið með Víði í 2. deild.

En hvar hófst ferilinn hjá þessum leikmanni og hvernig hefur hann verið hingað til?

„Ferilinn byrjaði í Belgíu hjá FC Brussels og komst ég í aðalliðið þar. Ég hef spilað með nokkrum liðum í Belgíu, í fyrstu og annarri deild. Ég vann líka titil í þriðju deildinni þar. Ég fór frá Belgíu þegar ég var 25 ára til þess að spila erlendis og hef ég spilað í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Taílandi og hér á Íslandi."

„Ég kann mjög vel við Ísland, þess vegna er ég enn hérna. Landið er mjög fallegt og rólegt. Það var mjög auðvelt fyrir mig að aðlagast íslenska lífsstílnum."

Fyrir þetta tímabil var óvissa um það hvort Mehdi myndi snúa aftur í Víði. Hann ákvað á endanum að gera það.

„Ég var mjög nálægt því að fara aftur til Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Ég var tilbúinn að hefja nýtt ævintýri þar. En það gekk ekki upp út af einhverjum nýjum reglum hjá knattspyrnusambandinu þar. Ég hafði því samband við Víði og við náðum fljótlega samkomulagi. Ég hefði getað samið við annað félag á Íslandi, en mér fannst Víðir vera besti kosturinn."

Deildin er mjög jöfn
Með sigrinum á Völsungi fór Víðir upp í annað sæti 2. deildarinnar. Deildin var mjög spennandi í fyrra og það stefnir í það að hún verði það aftur í ár.

„Það er satt að deildin er mjög jöfn. Allir leikir eru erfiðir og það lið sem sýnir mestan stöðugleika mun eiga möguleika á því að enda efst. Við áttum erfitt tímabil síðasta sumar og við erum fyrst og fremst að hugsa um að ná ákveðnum stigafjölda svo við getum haldið okkur í deildinni. Það er auðvitað frábær tilfinning að vinna leiki og við erum leggja hart að okkur til þess að ná því. Við sjáum hvar við verðum þegar tímabilið er hálfnað og ef við getum barist um eitthvað þá væri það gaman," sagði Mehdi.

Sjá einnig:
Bestur í 1. umferð: Isaac Freitas Da Silva (Vestri)
Bestur í 2. umferð: Kaelon Fox (Völsungur)
Bestur í 3. umferð: Aron Grétar Jafetsson (KFG)
Bestur í 4. umferð: Nikola Kristinn Stojanovic (Fjarðabyggð)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner