Man Utd gæti fengið Donnarumma ef Inter kaupir Onana - Tottenham reynir við Eze - Vardy óvænt orðaður við Napoli
   mán 12. júlí 2010 23:34
Magnús Már Einarsson
Umfjöllun: Ólafsvíkingar í undanúrslit eftir ótrúlegan leik
Einar Hjörleifsson varði tvær vítaspyrnur.
Einar Hjörleifsson varði tvær vítaspyrnur.
Mynd: Alfons Finnsson
Ellert Hreinsson skoraði gegn sínum gömlu félögum og misnotaði vítaspyrnu í vítaspyrnukeppninni.
Ellert Hreinsson skoraði gegn sínum gömlu félögum og misnotaði vítaspyrnu í vítaspyrnukeppninni.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Sindri Már Sigurþórsson (til vinstri) skoraði mark Víkings í framlengingunni en hann er í láni frá Stjörnunni.
Sindri Már Sigurþórsson (til vinstri) skoraði mark Víkings í framlengingunni en hann er í láni frá Stjörnunni.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Brynjar Gauti þurfti að taka tvær vítaspyrnur í vítaspyrnukeppninni.
Brynjar Gauti þurfti að taka tvær vítaspyrnur í vítaspyrnukeppninni.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Víkingur Ó. 3 - 3 Stjarnan (8-7eftir vítaspyrnukeppni)
1-0 Heiðar Atli Emilsson (´9)
2-0 Edin Beslija ('86)
2-1 Bjarki Páll Eysteinsson ('89)
2-2 Ellert Hreinsson ('90)
3-2 Sindri Már Sigurþórsson ('92)
3-3 Arnar Már Björgvinsson ('100)

Gangur vítaspyrnukeppninnar:
3-4 Baldvin Sturluson skorar
4-4 Artjom Gonchar skorar
4-5 Bjarki Páll Eysteinsson skorar
Bjarni Þórður Halldórsson ver frá Brynjari Gauta Guðjónssyni. Bjarni varði en fór of snemma af línunni og því þurfti að endurtaka spyrnuna
5-5 Brynjar Gauti skorar í annarri tilraun
5-6 Halldór Orri Björnsson skorar
6-6 Brynjar Kristmundsson skorar
6-7 Arnar Már Björgvinsson skorar
6-7 Bjarni Þórður Halldórsson ver frá Tomasz Luba
6-7 Einar Hjörleifsson ver frá Ellerti Hreinssyni
7-7 Edin Beslija skorar
7-7 Einar Hjörleifsson ver frá Jóhanni Laxdal
8-7 Þorsteinn Már Ragnarsson skorar og Víkingur Ólafsvík vinnur leikinn.

Víkingur Ólafsvík varð í kvöld fyrsta liðið úr þriðju efstu deild til að komast í undanúrslit í bikarkeppninni þegar liðið sigraði Stjörnuna í ótrúlegum leik í Ólafsvík. Víkingur Ólafsvík komst í 2-0 undir lok leiksins en Stjarnan jafnaði á ótrúlegan hátt áður en flautað var til loka venjulegs leiktíma.

Í framlengingunni skoruðu bæði liðin eitt mark og því var farið í vítaspyrnukeppni. Þar varði Einar Hjörleifsson, markvörður Víkings tvær spyrnur og hjálpaði liðinu að landa sæti í undanúrslitum. Bjarni Þórður Halldórsson, markvörður Stjörnunnar, varði líka tvær vítaspyrnur en í fyrra skiptið ákvað Þorvaldur Árnason dómari að láta endurtaka spyrnuna þar sem Bjarni Þórður fór af marklínunni.

Heiðar Atli Emilsson og Sindri Már Sigurþórsson skoruðu báðir fyrir Víking í leiknum í dag en þeir eru á láni frá Stjörnunni og ekki er ólíklegt að Garðbæingar nagi sig í handarbökin yfir að hafa leyft þeim að leika þennan leik.

Stemningin var mikil í Ólafsvík í kvöld og vel var mætt á völlinn. Áhorfendur þurftu ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu en það kom á níundu mínútu. Heiðar Atli skoraði þá með fínu vinstri fótarskoti úr vítateigsboganum og heimamenn komnir yfir.

Stjörnumönnum gekk illa að skapa sér færi í fyrri hálfleiknum en Einar Hjörleifsson bjargaði þó einu sinni vel frá Birni Pálssyni og Brynjar Kristmundsson bjargaði á línu í sömu sókn.

Í síðari hálfleiknum lögðu Stjörnumenn mikla áherslu á sóknarleikinn en Víkingar voru klókir og fengu færi til að bæta við eftir vel útfærðar sóknir, Tomasz Luba fékk meðal annars gott færi á markteig en Bjarni Þórður varði auðveldlega.

Bjarni Þórður gat hins vegar ekkert gert þegar Edin Beslija kom Víkingi í 2-0 á 86.mínútu. Beslija lék þá á Baldvin Sturluson áður en hann skrúfaði boltann í fjærhornið framhjá Bjarna Þórði.

Þarna héldu margir að björninn væri unninn hjá heimamönnum en svo var þó aldeilis ekki. Bjarki Páll Eysteinsson minnkaði muninn þremur mínútum síðar þegar hann lék á Artjom Gonchar og skoraði með skoti í nærhornið.

Þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma jöfnuðu Garðbæingar síðan. Eftir langa aukaspyrnu inn á teiginn fór Einar úr markinu en hann missti af boltanum. Í kjölfarið barst boltinn á Ellert Hreinsson sem skoraði af stuttu færi gegn sínum gömlu félögum í Víkingi og því varð að grípa til framlengingar.

Framlengingin byrjaði með látum því Sindri Már Sigurþórsson kom Víkingi yfir eftir að boltinn barst til hans hægra megin í teignum. Sindri var nýkominn inn á sem varamaður en hann fagnaði markinu lítið enda í láni frá Stjörnunni.

Stjarnan gafst ekki upp frekar en fyrr í leiknum og varamaðurinn Arnar Már Björgvinsson jafnaði á 100.mínútu eftir sendingu frá Steinþóri Frey Þorsteinssyni.

Skömmu síðar vildu Víkingar fá vítaspyrnu þegar Tryggvi Sveinn Bjarnason virtist brjóta á Fannari Hilmarssyni og á hinum enda vallarins skaust Ellert yfir úr góðu færi.

Í síðari hálfleik framlengingarinnar var minna um færi en Þorsteinn Már Ragnarsson, markahæsti leikmaður 2.deildar, átti þó skot sem Bjarni Þórður varði vel í horn.

Í vítaspyrnukeppninni voru leikmenn á skotskónum til að byrja með fyrir utan Brynjar Gauta sem skoraði þó í annarri tilraun. Bjarni Þórður varði frá Tomasz Luba í fjórðu spyrnu Víkings en Einar hélt heimamönnum inn í leiknum með því að verja frá Ellerti.

Því var farið í bráðabana þar sem Einar varði á magnaðan hátt frá Jóhanni Laxdal áður en Þorsteinn Már fór á punktinn. Þessi ungi leikmaður kórónaði góðan leik sinn með því að skora við mikinn fögnuð heimamann sem eru komnir í undanúrslit VISA-bikarsins.

Sigur Víkings var í raun verðskuldaður en liðið barðist mjög vel og uppskar eftir því. Árangur Víkings er magnaður á þessu ári en liðið hefur nú leikið 23 leiki í röð án þess að tapa og það er jöfnun á félagsmeti en spennandi verður að sjá hverjir mótherjar þeirra verða í undanúrslitunum.

Víkingur Ó.: Einar Hjörleifsson, Helgi Óttarr Hafsteinsson (Fannar Hilmarsson 84), Tomasz Luba, Brynjar Gauti Guðjónsson (F), Þorsteinn Már Ragnarsson, Edin Beslija, Heiðar Atli Emilsson (Sindri Már Sigurþórsson 90), Artjom Gonchar, Eldar Masic, Brynjar Kristmundsson, Dominik Bajda (Aljaz Horvat 81).
Ónotaðir varamenn: Alfreð Már Hjaltalín, Sindri Hrafn Friðþjófsson, Andri Freyr Hafsteinsson, Ingólfur Örn Kristjánsson (M) .

Stjarnan: Bjarni Þórður Halldórsson, Tryggvi Sveinn Bjarnason, Jóhann Laxdal, Björn Pálsson (Arnar Már Björgvinsson 78), Daníel Laxdal (F), Halldór Orri Björnsson, Hilmar Þór Hilmarsson (Atli Jóhannsson 46), Ólafur Karl Finsen (Bjarki Páll Eysteinsson 66), Steinþór Freyr Þorsteinsson, Baldvin Sturluson, Ellert Hreinsson.
Ónotaðir varamenn: Dennis Danry, Magnús Karl Pétursson (M), Birgir Hrafn Birgisson, Þorvaldur Árnason.