„Það er mikil spenna fyrir tímabilinu, bæði hjá strákunum í liðinu og öllum þeim sem standa í kringum liðið," segir Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, í samtali við Fótbolta.net.
Sjá einnig:
Spá þjálfara og fyrirliða fyrir Lengjudeildina: 6. sæti
Hin hliðin - Hrafn Guðmundsson (Afturelding)
Höfum tekið stór skref fram á við undanfarnar vikur
„Afturelding hefur náð að festa sig í sessi í Lengjudeildinni undanfarin ár og bæta árangurinn jafnt og þétt. Síðasta tímabil var mjög kaflaskipt. Það gekk illa að ná í stig til að byrja með en um mitt sumar var liðið á mjög miklu flugi og við sýndum að við getum staðist öllum liðum í deildinni snúning."
„Strákarnir hafa æft gríðarlega vel í vetur og verið á mikilli uppleið. Spáin kemur því ekkert sérstaklega á óvart,” segir Magnús.
Hann segir að undirbúningstímabilið hafi verið kaflaskipt. „Veturinn hefur verið kaflaskiptur. Við höfum átt marga flotta leiki en líka leiki þar sem ýmislegt hefur vantað upp á. Frammistaðan í Lengjubikarnum var upp og ofan þar sem meiðsli og fjarvera lykilmanna setti svip sinn á liðið en undanfarnar vikur hefur verið mikill stígandi. Við áttum frábæra æfingaferð til Campoamor á Spáni um miðjan apríl og liðsheildin er gríðarlega öflug."
Afturelding spilaði við Grindavík - sem verður einnig í Lengjudeildinni í sumar - í Mjólkurbikarnum á dögunum en sá leikur endaði með 0-1 sigri Grindvíkinga.
„Það var ágætis leikur en við höfum spilað fjóra leiki síðan sá leikur var og frammistaðan okkar hefur verið vaxandi með hverri vikunni fyrir mót. Við höfum tekið stór skref fram á við undanfarnar vikur og erum sannfærðir um að allt sé að smella saman hjá okkur á réttum tíma. Við mætum vel undirbúnir í fyrsta leik í Lengjudeildinni á Selfossi á föstudaginn," segir Magnús.
Fengu Rasmus í vörnina
Hópurinn er svolítið öðruvísi frá síðasta tímabili. Magnús segist finna fyrir breytingu þegar hann ræðir við leikmenn samanborið við síðustu ár en hann er núna á leið inn í sitt fjórða tímabil sem aðalþjálfari.
„Við í þjálfarateyminu erum mjög ánægðir með þá leikmenn sem hafa komið til okkar fyrir þetta tímabil. Við fundum það bersýnilega að það var auðveldara að ræða við leikmenn fyrir þetta tímabil heldur en undanfarin ár og það er augljóst að menn hafa meiri trú á verkefninu okkar en áður," segir Magnús.
„Fyrstu árin sem ég stýrði Aftureldingu höfðu menn litla trú á okkur og lítinn áhuga á að koma til okkar en þetta hefur breyst. Umgjörðin í kringum liðið er fyrsta flokks og stemningin fyrir fótboltanum í Mosfellsbæ hefur vaxið ár frá ári undanfarin ár. Það hjálpaði okkur að fá gæða leikmenn til okkar í vetur. Bæði öfluga uppalda Mosfellinga sem eru að snúa heim eins og Arnór Gauta Ragnarsson og Andra Frey Jónasson, sem og góða leikmenn frá öðrum félögum."
„Hópurinn er því bæði stærri og sterkari en undanfarin ár enda hafa þeir strákar sem hafa tekið þátt í verkefninu með okkur síðastliðin tímabil líka bætt sig mikið ár frá ári. Stemningin á leikjum okkar í Mosfellsbæ var frábær í fyrra og ég á von á því að hún verði ennþá betri í ár."
Það var einna stærst að danski varnarmaðurinn Rasmus Christiansen ákvað að koma frá Val í Mosfellsbæ.
„Rasmus hefur reynst okkur frábærlega innan sem utan vallar. Hann kemur með mikla reynslu og gríðarlegan karakter og það gefur okkur mikið. Auk hans þá höfum við fengið marga öfluga karaktera inn í hópinn frá síðasta tímabili. Það hefur lyft fagmennskunni hjá okkur ennþá meira upp og mun hjálpa okkur í baráttunni í sumar."
Býst við gríðarlega jafnri deild
Magnús býst við mjög jafnri deild í sumar, en möguleikar Aftureldingu á að fara upp eru enn meiri með nýju fyrirkomulagi þar sem liðin í öðru til fimmta sæti munu fara í úrslitakeppni um sæti í efstu deild.
„Ég býst við gríðarlegra jafnri deild. Nýliðarnir sem eru að koma upp eru öflugri en oft áður og það eru mörg lið sem ætla sér stóra hluti í sumar. Ég reikna með mjög spennandi og skemmtilegri deild í sumar og vonandi verður boðið upp á góðan fótbolta fyrir áhorfendur. Í fyrra var spennan í deildinni lítil undir lok móts en ég er viss um það að hún verði miklu meiri í ár."
„Við höfum verið að bæta okkur ár frá ári og ætlum að halda því áfram í sumar. Við höfum yfirleitt náð að enda ofar en spáin segir til um og það er ljóst að markmiðið í ár er að gera slíkt hið sama. Liðið hefur alla burði til að taka næsta skref og strákarnir hafa trú á því. Liðsheildin er gríðarlega sterk við höfum trú á því að góðir hlutir muni gerast í Mosfellsbæ í sumar," sagði Magnús að lokum.
Athugasemdir